Butch Harmon hefur mesta trú á Dustin Johnson
Einn frægasti golfkennari heims, Butch Harmon, telur að Dustin Johnson sé líklegastur til að sigra á Masters mótinu sem hefst á morgun á Augusta National golfvellinum í Georgíu.
Harmon er einmitt þjálfari Johnson en hann hefur mikla trú á kappanum.
„Dustin líður mjög vel með að vera orðinn besti kylfingur heims. Það fylgir því engin pressa. Við settum okkur markmið að komast í efsta sæti heimslistans eftir Masters eða í kringum Opna bandaríska en hann er kominn á þann stað mun fyrr en við héldum.
Það eru margir kylfingar búnir að vera á góðu skriði undanfarnar vikur en ég held að Dustin sé maðurinn sem aðrir þurfa að vinna. Við sjáum svo til á sunnudaginn.“
Dustin Johnson hefur verið í feikna góðu formi síðustu mánuði en hann hefur sigrað á síðustu þremur mótum sem hann hefur keppt í: Genesis Open, Heimsmótinu í Mexíkó og Heimsmótinu í holukeppni. Takist honum að sigra á Masters mótinu verður það í fyrsta sinn sem að efsti kylfingur heims sigrar á mótinu frá því árið 2002 þegar Tiger Woods afrekaði það.