Böðvar og Ragnhildur klúbbmeistarar GR 2020
Böðvar Bragi Pálsson og Ragnhildur Kristinsdóttir eru klúbbmeistarar Golfklúbbs Reykjavíkur árið 2020. Meistaramóti klúbbsins lauk á laugardaginn og kláruðu báðir klúbbmeistararnir mótið á 10 höggum undir pari.
Í kvennaflokki endaði Ragnhildur sjö höggum á undan Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur sem varð önnur á 3 höggum undir pari. Ragnhildur lék þriðja hring mótsins á 66 höggum á Korpunni og náði þar með góðri forystu sem hún var aldrei líkleg til að missa á lokadeginum. Eva Karen Björnsdóttir endaði í 3. sæti á 4 höggum yfir pari en hún hafði titil að verja.
Í karlaflokki léku sex kylfingar undir pari í mótinu en enginn betur en Böðvar Bragi sem endaði á 10 höggum undir pari. Böðvar endaði tveimur höggum á undan Andra Þór Björnssyni sem varð annar. Jóhannes Guðmundsson endaði í þriðja sæti á 7 höggum undir pari en hann lék lokahringinn á 3 höggum undir pari þrátt fyrir fjórfaldan skolla á 4. holu.
Hér er hægt að sjá úrslit allra flokka.
Staða efstu kylfinga í meistaraflokki kvenna:
1. Ragnhildur Kristinsdóttir, -10
2. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, -3
3. Eva Karen Björnsdóttir, +4
4. Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir, +5
5. Halla Björk Ragnarsdóttir, +20
6. Perla Sól Sigurbrandsdóttir, +28
6. Nína Margrét Valtýsdóttir, +28
Staða efstu kylfinga í meistaraflokki karla:
1. Böðvar Bragi Pálsson, -10
2. Andri Þór Björnsson, -8
3. Jóhannes Guðmundsson, -7
4. Sigurður Bjarki Blumenstein, -4
5. Arnór Ingi Finnbjörnsson, -3
5. Hákon Örn Magnússon, -3