Fréttir

Besti árangur sögunnar
Sunnudagur 26. febrúar 2023 kl. 10:09

Besti árangur sögunnar

Guðmundur Ágúst Kristjánsson GKG lauk leik nú í morgun jafn í 48. sæti á Hero Indian Open á DP mótaröðinni. Guðmundur átti erfiðan dag á vellinum.  Hann paraði fyrstu þrjár en fékk svo fjóra skolla á næstu sex holum og lauk fyrri 9 holunum á 40 höggum. Fyrsti fuglinn leit dagsins ljós á 13. braut og strax á eftir kom skolli. Á 18. fékk Guðmundur svo skramba og lokaniðurstaðan 78 högg eða 6 yfir pari.

Guðmundur lauk því leik á mótinu á 6 höggum yfir pari jafn í 48. sæti. Frekar súrt eftir frábæra byrjun en glæsilegur árangur engu að síður. Guðmundur Ágúst hefur nú náð niðurskurðinum í 3 mótum í röð á DP mótaröðinni sem kalla má Meistaradeild Evrópu í golfi. Það hefur engum Íslendingi tekist áður. Fyrir árangurinn í Indlandi fær Guðmundur um 9000 dollara í verðlaunafé er því samtals búinn að ná í á fjórðu milljón króna í verðlaunafé á síðustu þremur mótum. Frábær árangur hjá okkar fremsta kylfingi.

Guðmundur Ágúst kemur í stutt frí til Íslands áður en hann heldur til Kenya til að leika á Magical Kenya Open dagana 9-12 mars næstkomandi.