Fréttir

Arnar Már fær fimm stjörnur
Sunnudagur 26. febrúar 2023 kl. 13:02

Arnar Már fær fimm stjörnur

Arnar Már Ólafsson, afreksþjálfari GKG, fékk afhenta 5 stjörnu viðurkenningu á aðalfundi Conferderation Professional Golf (CPG) á Costa Navarino í Grikklandi. Um er að ræða eina helstu viðurkenningu samtakanna, sem áður báru nafnið PGA of Europe. Ekki er víst að allir átti sig á hversu mikill heiður Arnari Má er sýndur með þessari viðurkenningu en hún hefur verið veitt framúrskarandi golfkennurum og atvinnukylfingum frá árinu 1992. 

Arnar Már Ólafsson er fyrsti menntaði íslenski golfkennarinn. Hann lauk námi frá Svíþjóð árið 1991. Hann kenndi fyrst golf hjá Golfklúbbnum Keili, en flutti svo til Þýskalands árið 1996 þar sem hann bjó í 12 ár og stundaði fag sitt, golfkennslu. Arnar flutti aftur til Íslands 2007 og stofnaði Golfkennaraskóla PGA á Íslandi sem síðan hefur útskrifað tugi íslenskra golfkennara. Þar eru nú við nám ríflega 50 verðandi golfkennarar.

Arnar Már flutti aftur til Þýskalands 2009 og starfaði þar til ársins 2014 þegar hann sneri aftur til Íslands og hóf störf hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar, þar sem hann er nú afreksþjálfari. Arnar er aðalþjálfari atvinnukylfinganna Guðmundar Ágústs Kristjánssonar sem leikur á DP mótaröðinni og Bjarka Péturssonar.  Arnar hefur áður þjálfar leikmanninn Philipp Mejow sem lék á fjórum mótum á Evrópsku mótaröðinni. Glæsilegur ferill Arnars Más spannar nú ríflega 30 ár.

„Ég er mjög stoltur og þakklátur. Það verður að hafa í huga er að allt þetta sem ég hef gert er ekki hægt nema eiga fjölskyldu sem nennir svona kalli,“ sagði Arnar Már í samtali við Kylfing. „Golfkennaraskólinn stendur uppúr hjá mér. Það er erfiðasta og besta verkefnið sem ég hef tekið að mér og af öllu sem ég hef lært, þá hef ég lært mest af því. Framtíðin í golfkennslunni er spennandi en hún virðist svolítið vera að færast inn í box, þar sem allt er mælt. Það er góð þróun fyrir okkur, en það gleymist að kenna leikinni útá vellinum sjálfum. Það væri gott að hafa betra aðgengi að æfingavöllum svo PGA þjálfarar gætu sinnt því hlutverki betur.“