Fréttir

Ánægjuleg upplifun að leika í lokaráshópi
Laugardagur 25. febrúar 2023 kl. 14:21

Ánægjuleg upplifun að leika í lokaráshópi

„Þetta var mjög ánægjuleg upplifun og fann svo sem ekkert svakalegan mun á því að leika í lokaráshópi. Mér leið vel og byrjunin var bara geggjuð. Sló ekki feilhögg fyrstu holurnar. Var svo óheppinn með teighögg á 6.braut. Þurfti bara að vippa inná brautina. Fékk þannig fyrsta skollann. Svo voru þetta bara smá óheppni og léleg högg í bland næstu holur. En svona er þetta bara stundum. Ég naut þess að spila og líður vel á vellinum.“, sagði Guðmundur Ágúst Kristjánsson í spjalli við Kylfing að leik loknum á Hero Indian Open í dag. 

„Í stuttu máli má segja að það hafi vantað herslumuninn í öllum þáttum leiksins. Lenti nokkrum sinnum í því eftir 6.braut að þurfa vippa inn á brautina eftir teighögg sem voru þannig lagað ekkert léleg. Þetta bara skoppaði ekki með og ekkert við því að gera. Mæti bara ákveðinn til leiks á morgun og geri betur.“ 

Guðmundur Ágúst og Marcel Siem skarta sömu hárgreiðslunni. Í beinni útsendingu Viaplay sagði lýsandinn þegar Marcel kláraði högg og sjónvarpsvélarnar fóru yfir á Guðmund.. „from one man bun to another..“

„Já ég hermdi nú bara eftir hárinu á honum. Þetta er mjög hress og fínn náungi. Það væri draumur að leika með honum í tveggja manna lokaholli. Við værum flottastir bara tveir saman“, sagði Guðmundur Ágúst hlæjandi að lokum um félaga sinn Marcel Siem sem átti fínan dag á vellinum og er í öðru sæti á 10 höggum undir pari.