Simpson og Fitzpatrick byrjuðu best á Concession
Bandaríkjamaðurinn Webb Simpson og Englendingurinn Matt Fitzpatrick deila forystunni eftir fyrsta hringinn á Workday heimsmótinu sem fer fram á Concession vellinum í Flórída á Heimsmótaröðinni.
Simpson og Fitzpatrick léku fyrsta hringinn á 6 höggum undir pari og eru höggi á undan fjórum kylfingum. Fitzpatrick tapaði ekki höggi á hringnum á meðan Simpson endaði hringinn með því að fá þrjá fugla á síðustu fjórum holunum.
Brooks Koepka, Billy Horschel, Sergio Garcia og Kevin Kisner deila þriðja sætinu á 5 höggum undir pari. Sigurvegari síðasta árs, Patrick Reed, er í 7. sæti á 4 höggum undir pari.
Tveir bestu kylfingar heims, Bryson DeChambeau og Dustin Johnson léku tvo af sínum verstu hringjum í langan tíma og deila 64. sæti á 5 höggum yfir pari. Þeir áttu þó ekki jafn slæman dag og Matt Wolff sem lék á 83 höggum og hætti svo keppni.
Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.
Hér má sjá högg gærdagsins: