Guðrún Brá keppir í Suður Afríku
Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur ætlar að gera aðra tilraun til að vinna sér þátttökurétt á LET Evrópumótaröð kvenna, þeirri sterkustu í Evrópu. Hana vantaði tvö högg til að ná því í lokaúrtökumótinu í desember. Guðrún ætlar að keppa á fimm mótum í Suður Afríku í febrúar og mars á Sunshine mótaröð kvenna.
„Ég hef ákveðið að ferðast til Suður Afríku í febrúar og keppa þar á mótaröð sem heitir Sunshine Ladies tour. Þar mun ég keppa á 5 mótum í febrúar/mars sem með góðu gengi gefa mér inntöku á tvö LET mót í apríl í Suður Afríku. Með því að spila vel í þeim tveimur mótum þá fæ ég endurröðun á category frá stigalista LET og fæ inngöngu inn í næstu mót á tímabilinu,“ segir Guðrún Brá í færslu á Facebook nýlega.
Hún segir að henni hafi gengið vel á árinu 2024 á LET Access mótaröðinni sem er sú næst sterkasta í Evrópum og bætti meðalskorið sitt um tvö högg og varð tvisvar í 4. sæti og náði niðurskurðinum tíu sinnum í tólf mótum.
„Ég spilaði virkilega gott golf á lokastigi úrtökumótsins núna í desember 2024 í Marokkó. Ég var hársbreidd að ná korti á LET sem var mjög svekkjandi miðað við flotta spilamennsku. Ég náði niðurskurði fyrir lokadaginn og endaði mótið á -2 í 57. sæti af 154 spilurum. Árangurinn í ár gefur mér category 19 á LET 2025. Vegna mikilla aðsóknar og lítiilla möguleika á þátttöku inn á mótin á LET ætla ég að fara aðra leið til að komast að mótaröðinni,“ segir Guðrún Brá sem var í skemmtilegum viðtali í Dagmálum Mbl.is í lok árs 2024.