PGA: Patrick Rodgers efstur þegar leik var frestað
Annar hringur OHL Classic mótsins á PGA mótaröðinni fór fram í gær í Mexíkó. Fresta þurfi leik vegna myrkurs og náðu því ekki allir að ljúka leik. Það er Patrick Rodgers sem var í forystu þegar leik var frestað, en hann er samtals á 11 höggum undir pari.
Rodgers náði að ljúka við 15 holur í gær og var á sjö höggum undir pari á þeim tíma. Hann hefði örugglega helst viljað halda áfram því hann fékk fugl á síðustu fjórum holunum sem hann lék. Á fyrri níu holunum fékk hann þrjá fugla. Samtals er Rodgers á 11 höggum undir pari og er hann einu höggi á undan næstu mönnum.
Í öðru sæti á 10 höggum undir pari eru þeir Patton Kizzire og Rickie Fowler. Kizzire var í forystu eftir fyrsta hringinn eftir að hafa leikið á 62 höggum. Annan hringinn lék hann á 70 höggum, eða einu höggi undir pari. Fowler hefur aðeins lokið við 15 holur og er á fjórum höggum undir pari á öðrum hringnum.
Leikur hefst að nýju í dag klukkan 7:30 að staðartíma.