Örnninn er lentur
Örnninn er lentur

Fréttir

Ótrúleg tilþrif á Opna mótinu
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
mánudaginn 18. júlí 2022 kl. 10:23

Ótrúleg tilþrif á Opna mótinu

Myndir segja meira en mörg orð

Ástralinn Cameron Smith steig ekki feilspor á lokahring Opna mótsins sem lauk á The Old Course á St. Andrews í Skotlandi í gær. Smith lék óaðfinnanlegt golf og lauk leik á lokahringnum á 64 höggum eða á 8 höggum undir pari. Hann fékk átta fugla og tíu pör. Smith fékk fimm fugla í röð á 10. til 14. holu. Samtals lék hann hringina fjóra á 268 höggum (67-64-73-64) eða á 20 höggum undir pari.

Engum kylfingi hefur tekist að leika Opna mótið á The Old Course á St. Andrews á færri höggum né lægra skori en Smith gerði í ár en goðsögnin Tiger Woods sigraði á 269 höggum eða á 19 höggum undir pari árið 2000.

Smith lék á 64 höggum eða á 8 höggum undir pari The Old Course á St. Andrews í tvígang á mótinu, bæði á öðrum hring á föstudag og á lokahringnum í gær. Fyrir mótið í ár hafði engum sigurvegara á Opna mótinu tekist að leika þennan sögufræga völl á undir 65 höggum á þessu goðsagnakennda móti. Grunninn að sigrinum lagði hann með algjöru fuglafári á byrjun seinni níu og eins og svo oft áður var pútterinn hans besti vinur á mótinu.

Stórkostleg tilþrif litu dagsins ljós á St. Andrews um helgina. Það er ekki úr vegi að hefja upprijunina á frábærum 64 högga hring meistarans frá því á föstudag. Myndir segja meira en mörg orð: