Fréttir

Notah Begay III: Vissi ekki að það gengi svona vel hjá Woods
Notah Begay III
Þriðjudagur 31. október 2017 kl. 11:00

Notah Begay III: Vissi ekki að það gengi svona vel hjá Woods

Eins og greint var frá í gær hefur Tiger Woods boðað endurkomu sína á Hero World Challenge mótinu sem fram fer í lok nóvember. Woods hefur verið duglegur við að birta myndbönd af sér æfa undanfarið og voru því margir farnir að búast við tilkynningu um endurkomuna fljótlega. 

Fæstir bjuggust þó við því að hann yrði með svo snemma, og meira að segja einn af æskuvinum Woods, Notah Begay III, sagði í viðtali í gær að hann hefði ekki vitað að það gengi svona vel.

„Ég bjóst ekki við að þetta gengi svona vel, svona fljótt. Ég veit hversu þolinmóður hann hefur þurft að vera með hversu mikið hann má gera og hversu oft. Nú er hann kominn með grænt ljós. Það er vonandi að Woods fari varlega, því þegar hann fær grænt ljós, þá leggur hann allt undir. Ég er mjög ánægður fyrir hans hönd. Það að hann skuli enn hafa kraftinn og getuna til að keppa við bestu kylfinga heims er spennandi, svo framarlega sem hann meiðist ekki aftur.“

Það verður spennandi að fylgjast með í næsta mánuði, en þetta er dagurinn sem margir golfunnendur hafa beðið eftir.