Fréttir

Myndir: Ýmis verkefni framundan á Garðavelli
Garðavöllur.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 17. apríl 2021 kl. 20:20

Myndir: Ýmis verkefni framundan á Garðavelli

Vallarnefnd Golfklúbbsins Leynis hefur unnið hörðum höndum að ýmsum verkefnum á Garðavelli undanfarna mánuði. Nefndin birti á dögunum samantekt yfir þau verkefni sem stefnt er að klára nú á vordögum og birti á heimasíðu golfklúbbsins sem sjá má hér.

Hér fyrir neðan má sjá umrædd verkefni ásamt myndum frá Kristvini Bjarnasyni, formanni vallarnefndar GL:

1. hola: Fjarlægja og laga meira til í gróðri hægra megin við braut.

2. hola: Klára að slétta og tyrfa fyrir aftan flöt (Sjá mynd).


Mynd: GL.

3. hola: Ljúka endurbyggingu á hvítum teig og fjarlægja aspir á eyju sem skyggja á útsýni af teig. Markmið með því að fjarlægja aspirnar er að kylfingar sjái hvort bolti endi í tjörn eða skógi þar sem vallarmörk eru, og að kylfingar séu ekki í neinum vafa hvoru megin boltinn endaði (Sjá mynd).


Mynd: GL.

12. hola: Blái og rauði teigurinn slitinn í sundur og endurgerðir. Blár teigur verður þar sem aftari hluti rauða teigsins er í dag. Rauður teigur verður svo rétt framan við núverandi rauðan teig. Nýr stígur gerður meðfram þessum teigum og tengdur stígakerfi við 4-7-8 holur. Uppgröftur úr stíg notaður sem uppbyggingarefni í nýjan rauðan teig.

Markmið: Uppfylla kröfur um fjóra teiga á hverri holu með eðlilegum lengdarmun og losna við blaut svæði sem eru meðfram þessum tveimur teigum í dag.


Mynd: GL.

12. hola: Drena, lagfæra og endurmóta blauta forflöt, loka þremur glompum og gera eina nýja hægra megin við flöt. Markmið: Losna við vatn og gera svæðið framan við flöt meira aðlaðandi, sanngjarnara og auðveldar í umhirðu.


Mynd: GL.

17. hola: Lagfæra og slétta órækt í röffi vinstra megin til að gera þverskurð sem þar er sýnilegan af teig. Svæðið svo slegið sem röff vinstramegin.

Vallarmörk verða sýnileg og myndi skýra línu af teigum séð. Kylfingur á að vera nokkuð öruggur með að finna golfboltann sinn og að það sé ljóst að kylfingar þurfi að slá þriðja högg af teig sé golfboltinn út af vellinum. Hugsanlega þarf að færa nokkur tré til að vallarmarkar línan sé augljós af teig.


Mynd: GL.

18. hola: Loka öllum þremur glompunum, lagfæra dren og laga til framan við flöt hægra megin. Gerð verður ein stór glompa lengra frá flöt en þær sem fyrir eru. Markmið: Losna við vatn, minnka verulega sandaustur upp á flötina og gera aðkomu að flöt snyrtilegri, meira aðlaðandi og auðveldari í umhirðu.

Hér fyrir neðan er skissa af því sem verið er að tala um á 18. holu. Innri línur í flöt er núverandi flöt en sú ytri hugmynd að útlínum nýrrar flatar sem ekki er á dagskrá í ár en hugsanlega á næstu árum.


Mynd: GL.