Myndband: Vel heppnað grín hjá Nike og Tony Finau
Nú fer senn að líða að fyrsta risamóti ársins en Masters mótið hefst á fimmtudaginn eftir rúmlega viku.
Það muna eflaust margir eftir því að Tony Finau lenti í því að misstíga sig illa eftir að hafa farið holu í höggi á par 3 holu mótinu í fyrra. Fyrir þá sem ekki muna eftir því má sjá myndband af atvikinu hérna og nokkrar myndir af ökklanum hérna.
Margir héldu að Finau myndi missa af mótinu vegna meiðslanna en hann sýndi mikinn viljastyrk og lauk mótinu jafn í 10. sæti.
Finau gengur í fötum og skóm frá Nike og þar sem ár er liðið frá þessu óhappi var ákveðið að gera sérstaka skó fyrir Finau þetta árið. Skórnir voru sérhannaðir til að styðja við ökklann þegar mest á reynir, til dæmis þegar menn þurfa að fagna því að fara holu í höggi.
Fyrir þá sem eru spenntir að fá skónna þá tilkynnti Nike á heimasíðu sinni að þetta hafi allt saman verið grín út af 1. apríl.