Gunnlaugur Árni með tap og sigur á fyrsta keppnisdegi
Gunnlaugur Árni Sveinsson, landsliðskylfingur úr GK er í eldlínunni með bestu áhugakylfingum heims á Bonnallack Trophy en hann var valinn í 12 manna Evrópulið en 12 bestu áhugakylfingar Evrópu mæta 12 bestu áhugakylfingum Asíu/Eyjaálfu. Mótið fer fram á Al Hamra vellinum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum 8.-10. janúar.
Gunnlaugur lék í fjórmenningi í morgun en í fjórleik eftir hádegi. Gunnlaugur lék með Svíanum Algot Kleen í báðum leikjunum. Þeir félagar töpuðu í fjórmenningi 2&1 en höfðu svo sigur í fjórleiknum.
Staðan eftir fyrsta keppnisdag er jöfn. Asíu/Eyjaálfa vann fjórmenninginn 3,5-1,5 hjá Evrópu en leikur fór á hinn veginn í fjórleiknum og staðan eftir fyrsta daginn er því jöfn 7-7.
Leikfyrirkomulag mótsins er byggt á Ryder Cup en alls verða 32 leikir á þremur keppnisdögum. Fyrstu tvo keppnisdagana verða fimm fjórmenningsleikir og fimm fjórleikir. Á lokadeginum munu allir 12 kylfingarnir leika tvímenning.
Staðan og úrslit eftir fyrsta keppnisdag.
Gunnlaugur Árni er fyrsti íslenski kylfingurinn sem fær boð í Bonallack Trophy. Hann leikur fyrir LSU háskólann í Bandaríkjunum og átti árangur hans í háskólagolfinu í haust stóran þátt í að vera valinn í liðið þar sem hann hefur náð besta árangri allra nýliða í NCAA deildinni. Gunnlaugur Árni sigraði á sterku háskólamóti og lenti í öðru sæti í öðru móti. Hann hefur að undanförnu rokið upp heimslista áhugakylfinga.
Fyrirliði evrópska liðsins er Frakkinn Joachim Fourquet. Hér má sjá evrópska liðið:
- Jose Luis Ballester (Spánn)
- Dominic Clemons (England)
- Charlie Forster (England)
- Lev Grinberg (Úkraína)
- Filip Jacubčík (Tékkland)
- Algot Kleen (Svíþjóð)
- Pablo Ereño Perez (Spánn)
- B. Reuter (Holland)
- Gunnlaugur Árni Sveinsson (Ísland)
- R. Teder (Eistland)
- P. Wernicke (Þýskaland)
- Tim Wiedemeyer (Þýskaland)