Fréttir

Margeir ráðinn framkvæmdastjóri GÖ
Föstudagur 3. janúar 2025 kl. 17:25

Margeir ráðinn framkvæmdastjóri GÖ

Golfklúbbur Öndverðarness hefur ráðið Margeir Vilhjálmsson í starf framkvæmdarstjóra félagsins auk þess sem hann mun gegna starfi vallarstjóra.

Í tilkynningu frá GÖ sem barst félagsmönnum klúbbsins í desember segir: 

„Margeir hefur víðtæka reynslu í golfheiminum sem og í viðskiptalífinu. Hann hefur starfað sem vallarstjóri hjá GR og tók við sem framkvæmdarstjóri GR að því starfi loknu. Eftir það tóku við ýmis verkefni eins og tímabundið framkvæmdarstjóri GKG en að undaförnu hefur hann starfað sem sjálfstæður golfkennari, fararstjóri og yfirumsjón með golfskóla.

Margeir hefur störf 1. janúar og verður í 50% starfi fyrstu tvo mánuðina og í 100% starfi eftir það.

Stjórn GÖ þakkar Sveini Steindórssyni fráfarandi framkvæmdarstjóra innilega fyrir frábært starf í þágu klúbbsins undanfarin ár og vonum að við getum leitað til hans í framtíðinni um ráðgjöf.

Um leið og við bjóðum Margeir velkomin til starfa hjá GÖ  höfum við trú á að  ráðning  hans sé gæfuspor fyrir klúbbinn og framtíð hans og óskum okkur öllum til hamingju með nýjan starfsmann.“

„Ég er rétt að komast af stað í nýju starfi. GÖ er frábær klúbbur sem við ætlum að gera ennþá betri á næstu árum. Ég þekki ágætlega til vallarins. Þegar ég var framkvæmdastjóri GR fyrir um 20 árum þá tókum við virkan þátt í viðhaldi golfvallarins í Öndverðarnesi, sem leiddi svo til þess að ég vann með klúbbnum að hönnun og uppbyggingu nýja hluta vallarins. Öll aðstaða og tækjabúnaður klúbbsins er til fyrirmyndar og því ekkert að vanbúnaði að byggja ofan á það sem vel hefur verið gert hingað til. Þannig að ég hlakka til komandi golfsumars og mæli með að kylfingar taki frá dag eða daga í sumar til að leika golf í Öndverðarnesi. Bara skottúr úr höfuðborginni á frábæran golfvöll í notalegu og fallegu umhverfi“, sagði Margeir í samtali í dag.

Þrátt fyrir dimma daga og mikinn snjó þessa dagana styttist óðum í golfsumarið. Kylfingar eru því hvattir til að halda sig við efnið og æfa vel innan dyra næstu vikurnar og vera klárir til leiks þegar vorar. Það er margt spennandi að gerast í golfinu.