Markús sigraði á unglingamóti í Portúgal
Markús Marelsson úr GÁ, stigameistari Íslandsbankamótaraðarinnar í flokki 14 ára og yngri, gerði sér lítið fyrir og sigraði á móti á portúgölsku unglingamótaröðinni þar sem margir af efnilegustu kylfingum Portúgals taka þátt.
Markús, sem er 12 ára gamall, sigraði í flokki 14 ára og yngri á Dom Pedro Pinhal vellinum í Vilamoura á Algarve sem er þröngur skógarvöllur með litlum flötum svo þar reynir á nákvæmni í uppafshöggum sem og í innáhöggum.
Mótið fór fram dagana 23.-24. febrúar og voru spilaðar 36 holur. Völlurinn var 5914 metra langur af keppnisteigunum en Markús spilaði hringinga tvo á 14 höggum yfir pari (77, 81) og skilaði það honum tveggja högga sigri. Frábær spilamennska hjá þessum efnilega kylfingi sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.
Hægt er að skoða úrslitin úr mótinu inná heimasíðu Portúgalska golfsambandsins með því að smella hér. Farið er inn í Resultatos, Sub 14, Masculino.
Skorkort Markúsar á fyrri hringnum mótinu.