MacIntyre leiðir á Kýpur
Fyrsti hringur Aphrodite Hills Cyprus Showdown fór fram í dag á Kýpur en um er að ræða mót vikunnar á Evrópumótaröð karla í golfi. Skotinn Robert MacIntyre lék manna best á fyrsta keppnisdeginum og leiðir hann með einu höggi.
Hinn 24 ára gamli MacIntyre lék á 6 höggum undir pari á fyrsta hringnum eða 65 höggum. Hann heldur því áfram góðu gengi á Kýpur en um síðustu helgi endaði hann í 3. sæti á Cyprus Open.
Höggi á eftir MacIntyre eru sjö kylfingar jafnir á 5 höggum undir pari. Þeirra á meðal er Belginn Thomas Detry og fyrrum Ryder spilarinn Jamie Donaldson.
Sigurvegari síðustu helgar, Callum Shinkwin, fór einnig vel af stað og er jafn í 16. sæti á 3 höggum undir pari.
Annar hringur mótsins fer fram á morgun, föstudag, en alls eru spilaðir fjórir hringir í mótinu.