Kristín Pálsdóttir - minningarorð
Kristín Halldóra Pálsdóttir, hjúkrunarfræðingur og afrekskylfingur, lést á líknardeild Landspítalans 10. september 2020. Kristín fæddist 14. maí 1945 í Hafnarfirði og var 75 ára þegar hún lést. Hún var m.a. hjúkrunarforstjóri Heilsugæslunnar í Hafnarfirði og síðar framkvæmdastjóri sömu stofnunar.
Kristín var afrekskona í þeim íþróttum sem hún stundaði. Hún varð m.a. tvívegis Íslandsmeistari með liði FH í handknattleik en golfíþróttin átti hug hennar allan eftir að handboltaferlinum lauk. Kristín var sannarlega ein af driffjöðrum golfíþróttarinnar á Íslandi og sérstök fyrirmynd kvenna í golfi.
Kristín hóf golfiðkun hjá Golfklúbbnum Keili árið 1970. Með markvissum æfingum frá upphafi náði mjög fljótt góðum tökum á golfíþróttinni, með það fyrir augum að ná árangri. Æfingarnar skiluðu árangri og aðeins fimm árum eftir að hún byrjaði í golfi varð hún Íslandsmeistari. Þá tókst henni að verja titilinn árið 1976.
Hún var fyrsti kylfingurinn úr Golfklúbbnum Keili sem fagnaði Íslandsmeistaratitli í golfi í kvennaflokki. Kristín ruddi einnig brautina fyrir íslenska afrekskylfinga í kvennaflokki. Hún tók fyrst íslenskra kvenna þátt í alþjóðlegu golfmóti þegar hún lék í Kalmar í Svíþjóð árið 1976.
Hjá Keili varð Kristín margfaldur klúbbmeistari. Hún varð einnig margfaldur Íslandsmeistari í keppni eldri kylfinga og lék m.a. með fyrsta landsliði eldri kylfinga í kvennaflokki. Afrekaskrá Kristínar í golfíþróttinni er löng en hún tók þátt í fjölmörgum alþjóðlegum verkefnum, í keppni einstaklinga og liða.
Kristín lét mikið að sér kveða á mörgum sviðum golfhreyfingarinnar og skilur eftir sig djúp spor í íslenskri golfsögu.
Kristín var ekki aðeins fremst í flokki í keppni á golfvellinum. Hún var einnig mjög virkur þátttakandi í félagsstarfi Golfklúbbsins Keilis og einnig hjá Golfsambandi Íslands. Kristín var í 13 ár liðsstjóri kvennalandsliðsins á fjölmörgum mótum víðsvegar um heiminn, þar sem reynsla hennar og þekking kom að góðum notum. Kristín sat meðal annars í stjórn Keilis, Golfsambands Íslands og Landssambandi eldri kylfinga. Hún var sæmd gullmerki Keilis og GSÍ fyrir ómetanlegt framlag sitt til golfíþróttarinnar, segir að lokum í minningarorðum frá Golfsambandi Íslands á golf.is.
kylfingur.is færir fjölskyldu og aðstandendum Kristínar innilegar samúðarkveðjur.
Stjórn GSÍ árið 1985. Efri röð frá vinstri: Frímann Gunnlaugsson framkvæmdastjóri GSÍ, Hannes hall,
Ómar Jóhannsson og Guðmundur S. Guðmundsson.
Neðri röð frá vinstri: Kristín Pálsdóttir, Konráð Bjarnason forseti GSÍ og Gísli Sigurðsson. Mynd/GSÍ.