Gunnar Hansson er kylfingur vikunnar
Gunnar Hansson, leikari og þáttastjórnandi Golfs á Íslandi sem sýndur er á RÚV, er kylfingur vikunnar að þessu sinni. Gunnar er fertugur að aldri, giftur og þriggja barna faðir. Hann er helst þekktur fyrir störf sín á sviði leiklistar en í sumar helti hann sér af fullu í störf fyrir RÚV í nýjum og skemmtilegum þætti um íslenskt golf sem sýndur er á þriðjudögum. Gunnar er einnig fær kylfingur en hann er með um fimm í forgjöf. Kylfingur.is fékk Gunnar til að svara nokkrum léttum spurningum um golfið.
Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvers vegna?
Byrjaði c.a. 9-10 ára þegar ég byrjaði að draga fyrir ömmu mína.
Hefur þú verið í öðrum íþróttum?
Hef stundað fótbolta, handbolta og körfubolta af miklum móði en samt minna undanfarin ár.
Helstu afrek í golfinu?
Fór lægst niðrí 3 í forgjöf... er það afrek?
Hvað er það neyðarlegasta sem komið hefur fyrir þig á golfvellinum?
Af nægu að taka... líklega samt neyðarlegast þegar ég fór 15. holuna í Grafarholti á 24 höggum (held ég hafi slegið heilu dúsíni af Dunlop DDH ofan í tjörnina...Árni bróðir fékk boltana í fermingagjöf).
Hver er þinn helsti styrkleiki og veikleiki í golfi?
Er yfirleitt nokkuð jákvæður sem skilar sér í skárra golfi. Minn helsti veikleiki er skortur á æfingu og einbeitingu.
Hverjir eru uppáhalds kylfingarnir og af hverju?
Við eigum svo marga góða kylfinga, en Úlfar Jóns var fyrsti kylfingurinn sem ég leit mikið upp til og það er alltaf sterkt í manni. Svo er svipað með Seve Ballesteros, mér fannst hann flottastur og sá heimildarmynd um hann eftir að hann dó og þá sannfærðist ég um að hann var einmitt það.
Ef ekki golf þá hvað?
Tóm leiðindi.
Hvernig reynsla hefur það verið að vera með Golf á Íslandi sjónvarpsþáttinn á RÚV?
Það hefur verið gríðarlega skemmtilegt! Að fá vinnu við það að stinga sér á bólakaf ofaní uppáhaldsíþróttina...getur ekki verið betra.
Hefur þú farið holu í höggi eða verið nálægt því?
Hef tvisvar farið holu í höggi. Þegar ég var ellefu ára á 2 holu. í Grafarholtinu (3-tré) og þegar ég var 17 ára í Ríkismeistaramótinu í New Mexico, var þar skiptinemi í eitt ár.
Hver er frægasta persónan sem þú er með í símanum?
Án efa Sveppi (svo einhverjir danskir gaurar).
Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?
Birgir Leifur eða Laddi... líklega er Laddi frægari.
Hvaða keppnisfyrirkomulag er skemmtilegast í golfi og hvers vegna?
Holukeppni, þ.e. sérstaklega í Sveitakeppnis/Ryder fyrirkomulagi. Gaman að búa til liðsstemningu og holukeppnin ýtir manni útí að taka sénsa.
Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf?
Nei, ekkert sérstaklega.
Hvert er uppáhaldshöggið í golfi?
Þetta góða.
Hver er besti kylfingur Íslands fyrr og síðar?
Ómögulegt að segja, Úlfar og Biggi Leifur en svo er gaman að sjá ungu kylfingana. T.d. hefur Óli Lofts sýnt frábæra takta og spennandi að fylgjast með framhaldinu.
Hvað finnst þér skemmtilegast og leiðinlegast við golf?
Skemmtilegast er að standa á fyrsta teig (á nánast hvaða velli sem er) í frábæru veðri. Leiðinlegast er að spila golf í brjáluðu veðri.
Hvað er það sem þú þarf mest að bæta í þínum golfleik?
Æfa meira, sérstaklega stutta spilið og púttin.
Getur þú sagt okkur frá eftirminnilegri golfsögu af þínum golfferli?
Þegar ég fór holu í höggi í New Mexico, þá hitti ég boltann mjög illa, þ.e. beint í miðjan boltann, og sagði nokkuð hátt „Sh**!!!” Boltinn fór aftur á móti þráðbeint inná flöt og beint ofan í holuna. Gaurinn sem var að spila með mér var í mjög fúlu skapi, sá ekkert fyndið við þetta, heldur beygði sig niður til þess að týja upp boltanum sínum og muldraði með sjálfum sér „Yeah... sh**!!!”
Fylgist þú mikið með golfi, erlendum mótum eða mótaröðinni hér heima?
Já mjög mikið, enda er það vinnan mín.
Staðreyndir:
Nafn: Gunnar Hansson
Aldur: 40
Klúbbur: GÁS
Forgjöf: 4,9
Masters eða Opna breska? Ekki hægt að velja á milli, toppurinn hvort á sinn hátt.
St. Andrews eða Pebble Beach? Myndi frekar vilja spila St. Andrews ef ég þyrfti að velja, ég bara verð að spila hann áður en ég dey.
Uppáhalds matur: Grísarif.
Uppáhalds drykkur: Jólaöl
Uppáhalds golfhola: 18. hola í GR... veit ekki af hverju...
Erfiðasta golfholan: 15. hola í GR, á í andlegu stríði við hana síðan úr æsku.
Ég hlusta á: Alls kyns tónlist.
Besti völlurinn: Sunningdale í Englandi eða Cardinal Country Club í North Carolina.
Besta skor (hvar): 70 högg á Hellu og 70 högg á Nesvellinum.
Besta vefsíðan: PGAtour.com
Besta blaðið: Skakki Turninn (sem er því miður ekki lengur til!)
Besta bókin: Uppvöxtur Litla Trés.
Besta bíómyndin: This is Spinal Tap.
Besti kylfingurinn: Tiger Woods
Golfpokinn
Dræver: TaylorMade R360 9,5°
Brautartré: Callaway 3+ Strong Three Blendingur/Hybrid: Titleist 585H 19°
Járn: Ping i3 blade
Fleygjárn: Titleist BV Vokey 54°og 60°
Pútter: Odyssey 2-ball White Hot
Hanski: FootJoy
Skór: Ecco Golf-street (þægilegustu golfskór sem ég hef átt!)