Fréttir

Guðrún Brá um miðjan hóp eftir fyrsta hring
Guðrún Brá Björgvinsdóttir
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
fimmtudaginn 10. febrúar 2022 kl. 19:36

Guðrún Brá um miðjan hóp eftir fyrsta hring

„Ég átti nokkur mjög góð högg og nokkur mjög slæm“

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbnum Keili, hóf leik á Evrópumótaröðinni í morgun á Magical Kenya Ladies Open. Hún hóf hringinn ágætlega og spilaði fyrstu fjórar holurnar á pari en fékk tvo skolla og einn tvöfaldan skolla á næstu fjórum holum. Okkar kona kláraði níundu holuna á fugli og var á þremur höggum yfir pari eftir fyrri 9 holurnar. Á seinni níu fékk hún síðan þrjá skolla og einn fugl og lauk leik á 77 höggum eða 5 höggum yfir pari.

Guðrún er jöfn í 48. sæti en 94 kylfingar hófu leik í morgun. Skor keppenda á fyrsta hring var í hærri kantinum en aðeins fjórir kylfingar luku leik undir pari í dag. Hin sænska Linnea Ström er með tveggja högga forskot eftir hringinn en hún lauk leik á fjórum höggum undir pari.

Guðrún Brá sagðist í stuttu spjalli við Kylfing geta tekið margt gott með sér eftir daginn þó margt hafi ekki verið eins gott. „Ég átti nokkur mjög góð högg og nokkur mjög slæm. Það var heitt, mikill vindur og völlurinn er mjög þurr vegna lítilla rigninga undanfarið. Þessi völlur er mjög fljótur að refsa ef þú kemur þér ekki á réttu staðina.“

Guðrún Brá leikur annan hringinn á Vipingo Ridge vellinum á morgun og á rástíma uppúr klukkan 5 í fyrramálið.

Staðan á mótinu