Guðrún Brá sigraði með miklum yfirburðum á Íslandsmótinu í höggleik
Atvinnukylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, sigraði í dag á Íslandsmótinu í höggleik sem fram fór í Vestmannaeyjum. Guðrún Brá sigraði með nokkrum yfirburðum en þetta var hennar fyrsti Íslandsmeistaratitill í höggleik.
Guðrún Brá hóf lokadaginn með fjögurra högga forystu á Helgu Kristínu Einarsdóttur og lét hana aldrei af hendi þar sem hún lék á höggi yfir pari við mjög erfiðar aðstæður. Á 18. holunni gerði Guðrún Brá sér lítið fyrir og vippaði beint í holu fyrir fugli og kláraði mótið með stæl. Keiliskonan endaði á 8 höggum yfir pari í heildina og sigraði með 11 högga mun. Ótrúlegir yfirbuðir.
Guðrún Brá hefur verið einn besti kvenkylfingur landsins undanfarin ár og náði hún sínum fyrsta Íslandsmeistaratili í fyrra þegar hún sigraði á Íslandsmótinu í holukeppni, sem fór einnig fram í Vestmannaeyjum. Í ár hefur hún verið að gera fína hluti á LET Access mótaröðinni og sigrað á tveimur mótum á Eimskipsmótaröðinni í sumar áður en hún sigraði á Íslandsmótinu í höggleik.
Saga Traustadóttir, GR, kom sér upp í 2. sætið með flottum lokahring sem hún lék á 71 höggi eða höggi yfir pari. Helga Kristín endaði svo í þriðja sæti á 23 höggum yfir pari. Ragnhildur Sigurðardóttir, sem lék í lokahollinu með þeim Guðrúnu og Helgu, náði sér ekki á strik í dag og endaði í 10. sæti.
Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.
Lokastaðan:
1. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, 70, 75, 72, 71
2. Saga Traustadóttir, GR, 72, 76, 79, 72
3. Helga Kristín Einarsdóttir, GK, 73, 73, 75, 82
4. Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, 78, 70, 82, 76
5. Hulda Clara Gestsdóttir, GKG, 78, 75, 77, 77
5. Hafdís Alda Jóhannsdóttir, GK, 75, 81, 76, 75