Fréttir

Guðrún Brá rétt við það að komast áfram
Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
föstudaginn 2. ágúst 2019 kl. 13:10

Guðrún Brá rétt við það að komast áfram

Guðrún Brá Björgvinsdóttir hefur lokið leik á öðrum degi Amundi Czech Ladies Challenge mótinu en mótið er hluti af LET Access mótaröðinni. Hún lék á 73 höggum annan daginn í röð og er því samtals á tveimur höggum yfir pari.

Hún hóf leik á fyrsta teig í dag og fékk tvo fugla, þrjá skolla og fimm pör á fyrstu níu holunum. Á þeim síðari fékk Guðrún níu pör og endaði því hringinn höggi yfir pari. Eins og staðan er núna er Guðrún jöfn í 54. sæti.

Þar sem ekki allar hafa lokið leik er ekki komið á hreint hvort Guðrún kemst áfram. Eins og staðan er núna miðast niðurskurðurinn við þær sem eru á þremur höggum yfir pari og betur. Lokadagur mótsins fer fram á morgun. 

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.

Uppfært:

Guðrún Brá er jöfn í 51. sæti eftir daginn og kemst því örugglega gegnum niðurskurðinn.