Guðmundur Ágúst og Bjarki um miðjan hóp í Frakklandi
Andri Þór náði sér ekki á strik
Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Bjarki Pétursson, báðir úr GKG og Andri Þór Björnsson úr GR luku leik á fyrsta hring á Le Vaudreuil Golf Challenge í Frakklandi í dag en mótið er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu.
Guðmundur Ágúst lék á 72 höggum eða á pari Golf PGA France du Vaudreuil vallarins og Bjarki kom í hús á 73 höggum eða á 1 höggi yfir pari. Andri Þór kom í hús á öllu lakara skori, 79 höggum eða á 7 höggum yfir pari vallarins. Guðmundur Ágúst og Bjarki eru um miðjan hóp fyrir annan hringinn á morgun.
Það er hinn skoski, Craig Ross, sem leiðir á 7 höggum undir pari.
Bjarki verður ræstur út á annan hring upp úr klukkan sjö í fyrramálið á íslenskum tíma en Guðmundur Ágúst og Andri Þór upp úr klukkan ellefu.