Fréttir

Gott mót hjá Haraldi Franklín í Höfðaborg
Haraldur var óheppinn í þriðja hring en náði sér aftur vel á strik í fjórða hring og virðist til alls líklegur í næstu mótum. kylfingur.is/golfsupport.nl
Sunnudagur 11. febrúar 2024 kl. 15:05

Gott mót hjá Haraldi Franklín í Höfðaborg

Haraldur Franklín Magnús endaði jafn í 13. sæti á Bain’s Whisky Cape Town mótinu í Höfðaborg í S-Afríku, á Áskorendamótaröðinni 8.-11. febrúar. Haraldur átti besta lokahringinn með nokkrum öðrum og lagaði stöðu sína aftur eftir slakan þriðja hring en okkar maður var jafn tíu öðrum í forystu eftir 36 holur og endaði á -11 í heildina.

Haraldur lenti í vandræðum á þriðja hring. Hann var í lokahollinu. Þegar síðustu ráshóparnir fóru út var kominn mikill vindur sem keppendur fyrir hádegi sluppu við. „Það var blankalogn fyrir hádegi og mikið af góðum skorum. Svo kom íslenskt rok eftir hádegi og skorin versnuðu í stíl við það. Þó ég sé vanur íslensku roki þá lenti ég í slæmum fimm holu kafla þar sem ég tapaði fjórum höggum. Ég náði mér aftur á strik í lokahringnum og tek margt mjög gott úr þessu móti yfir í það næsta sem er í George, hér í S-Afríku,“ sagði Haraldur í spjalli við kylfing en hann vildi koma góðum kveðjum til fjögurra Íslendinga sem fylgdu honum í gegnum lokahringinn í Höfðaborg.

Það verður spennandi að sjá hvernig Hadda gengur í næstu viku en þá verður leikið á þremur völlum á Fancourt golfsvæðinu, m.a. á Fancourt Links vellinum. Þar hefur Forsetabikarinn (Bandaríkin á móti Alþjóða liðinu) farið fram en völlurinn er magnaður en hinir tveir eru einnig meðal bestu golfvalla í S-Afríku. „Verður út fyrir minn þægindaramma að geta ekki undirbúið mig fullkomlega. Ómögulegt á þremur mismunandi völlum. En hlakka til að spila skemmtilega golfvelli,“ sagði Haraldur.

Haraldur fékk rúma 600 þúsund krónur í verðlaunafé fyrir árangurinn í þessu móti. Þetta var annað mótið af þremur á Áskorendamótaröðinni sem haldin eru í ársbyrjun í S-Afríku. Haraldur komst ekki í gegnum niðurskurðinn í því fyrsta en gerði vel í þessu móti. Haddi fékk hins vegar um tólfhundruð þúsund krónur fyrir 33. sætið á móti á DP mótaröðinni, þeirri efstu í Evrópu, í Ástralíu í desember.