Gull 24 open búið að festa sig í sessi
Ræst út í sólarhring samfellt
Eitt af því yndislegasta við golf á Íslandi, að hluta úr sumri er hægt að leika golf allan sólarhringinn. Það vita þeir sem hafa prófað, að leika golf um miðja nótt og heyra ekkert nema fagran fuglasöng, einstakt!
Golfklúbbur Kiðjabergs er einn þeirra golfklúbba sem gera út á þennan einstaka íslenska eiginleika og eru með mót sem ber heitið Gull 24 open. Ölgerðin er aðalstyrktaraðili mótins og eru verðlaunin einkar glæsileg. Það sérstaka við þetta mót er að byrjað er að ræsa út kl. 14:00 á föstudegi og er ræst út samfleytt til 13:50 á laugardegi!
Leikið er skv. punktafyrirkomulagi og voru fjórir kylfingar efstir á 38 punktum; Lárus Guðmundsson frá Golfklúbbi Selfoss, Jón Gunnarsson frá Golfklúbbi Suðurnesja, Harald Pétursson frá Golfklúbbi Mosfellsbæjar, og heimamaðurinn Magnús Rósinkrans Magnússon frá Golfklúbbi Kiðjabergs.
Eftir mikla útreikninga var það Selfyssingurinn Lárus sem stóð uppi sem sigurvegari og ber því titilinn „Gull 24 open“ meistarinn næsta árið.
Kylfingur var mættur á miðnætti og spilaði með framkvæmdastjóra Golfklúbbs Kiðjabergs, Þórði Rafni Gissurarsyni. Þórður sem varð Íslandsmeistari í höggleik árið 2015, fór yfir sögu Gull 24 open, fór yfir starfið í Kiðjabergi og þar sem tíu ár eru liðin síðan hann fagnaði stærsta titlinum í íslensku golfi, var komið inn á hvort hann mæti til leiks í ár.