Garcia fór vel af stað í Dúbaí
Spánverjinn Sergio Garcia er jafn í efsta sæti þegar rúmlega helmingur keppenda hefur lokið leik á fyrsta keppnisdegi Omega Dubai Desert Classic mótsins.
Garcia, sem sigraði á þessu móti árið 2017, spilaði fyrsta hringinn í dag á 6 höggum undir pari þar sem uppskriftin var einföld, sex fuglar og 12 pör.
„Ég elska ennþá að keppa,“ sagði Garcia eftir hringinn. „Ég elska að æfa, reyna að verða betri og það er það sem ég reyni að gera allan tímann.“
Auk Garcia lék Justin Harding á 6 höggum undir pari í morgun og deila þeir efsta sætinu í mótinu. Höggi á eftir þeim eru þeir Paul Casey, Adrian Otaegui, Thomas Detry ásamt þeim Kurt Kitayama og Richard Sterne sem hafa þó ekki lokið leik í dag.