Evrópumótaröðin: Robert Karlsson kominn í forystu
Þegar einum hring er ólokið á British Masters mótinu er Svíinn Robert Karlsson í forystu. Hann er á 12 höggum undir pari og er aðeins einu höggi á undan næstu mönnum. 17 kylfingar eru fjórum höggum á eftir eða minna og ætti því lokahringurinn að verða mjög spennandi.
Karlsson var einn af fimm sem voru jafnir í öðru sæti fyrir hringinn í dag. Í dag lék Karlsson á 67 höggum, eða þremur höggum undir pari. Hann fékk einn örn, tvo fugla, einn skolla og restina pör á hringnum í dag og er hann eftir daginn á 12 höggum undir pari.
Jafnir í öðru sæti á 11 höggum undir pari eru þeir Paul Dunne, Richie Ramsey, Graeme Storm, Ian Poulter og Tyrrell Hatton, en Hatton var í forystu fyrir daginn í dag.
Rory McIlroy átti frábæran hring í dag og kom hann í hús á 64 höggum, eða sex höggum undir pari. Hann er því á 10 höggum undir pari, tveimur höggum á eftir, ásamt fjórum öðrum.