Evrópumótaröð kvenna: Lampert í forystu
Annar hringur Andalucia Costa del Sol mótsins á Evrópumótaröð kvenna var leikinn í dag. Það er hin þýska Karolin Lampert sem er í forystu en hún hefur leikið báða hringina á 68 höggum.
Á hringnum í dag fékk Lampert sjö fugla, þrjá skolla og restin pör og kom því í hús á fjórum höggum undir pari. Samtals er hún á 8 höggum undir pari, einu höggi á undan næstu konum.
Fjórar eru jafnar í öðru sæti, þær Aditi Ashok, Anne Van Dam, Marianne Skarpnord og Nanna Madsen. Allar eru þær á samtals 7 höggum undir pari.
Valdís Þóra Jónsdóttir var á meðal keppenda en hún komst ekki í gegnum niðurskurðinn. Nánar má lesa um hringinn hennar hér.