Charl Schwartzel sigraði á LIV Golf invitational í London
Vann sér inn tæpar fimm milljónir Bandaríkjadala í verðlaunafé
Suður-Afríkumaðurinn, Charl Schwartzel kom sá og sigraði á fyrsta móti LIV Golf Invitational mótaraðarinnar sem lauk á Centurion vellinum í London nú fyrir skömmu. Schwartzel lék hringina þrjá á 203 höggum (65-66-72) eða á 7 höggum undir pari vallarins. Landi hans, Hennie Du Plessis, var annar á 6 höggum undir pari og í 3.-4. sæti voru Suður-Afríkumaðurinn, Branden Grace og Bandaríkjamaðurinn, Peter Uihlein.
Suður-Afríkumennirnir sem voru í efstu sætunum mynduðu lið Stinger GC ásamt landa sínum, Louis Oosthuizen, sem var fyrirliði liðsins. Lið þeirra sigraði liðakeppni mótsins með yfirburðum. Stinger GC lauk leik á 20 höggum undir pari en næsta lið, Crushers GC, lauk leik á 6 höggum undir pari. Lið Majesticks GC hafnaði í þriðja sæti. Í liðakeppni telja tvö bestu skor innan hvers liðs á fyrstu tveimur hringjunum og þrjú bestu skorin á lokahringnum.
Lið Stinger GC skiptu með sér 3 milljónum Bandaríkjadala fyrir sigurinn í liðakeppninni. Lið Crushers GC fékk 1 milljón og 500 þúsund í sinn hlut fyrir annað sætið og lið Majesticks GC skipti með sér 500 þúsund Bandaríkjadölum fyrir þriðja sætið.
Schwartzel vann sér inn 4 milljónir og 750 þúsund Bandaríkjadali samtals fyrir sigurinn í bæði einstaklings- og liðakeppninni. Til samanburðar hafði hann frá árinu 2005 og til dagsins í dag unnið sér inn rúmar 20 milljónir Bandaríkjadala samtals. Á þessu þriggja daga móti vann Suður-Afríkumaðurinn sér inn tæplega fjórðung alls sem hann hafði unnið sér inn fyrir mót. Keppnistímabilið 2015-2016 var vænlegasta keppnistímabil Schwartzel til þessa með tilliti til verðlaunafjár er hann vann sér inn tæpar 3 milljónir Bandaríkjadala það tímabil. Fram að þessu móti hafði hann unnið sér inn rúma 35 þúsund Bandaríkjadali.
Du Plessis vann sér inn tæpar 3 milljónir Bandaríkjadala. Hann fékk 2 milljónir og 125 þúsund Bandaríkjadali í sinn hlut fyrir annað sætið í einstaklingskeppninni og 750 þúsund Bandaríkjadali til viðbótar fyrir sigur Stinger GC í liðakeppninni. Grace fékk í sinn hlut 2 milljónir og 250 þúsund Bandaríkjadali, fyrir þriðja sætið í einstaklingskeppninni fékk hann 1 milljón og 500 þúsund Bandaríkjadali og rétt eins og landar sínir 750 þúsund Bandaríkjadali fyrir sigur Stinger GC í liðakeppninni.
Bandaríkjamaðurinn, Dustin Johnson, sem talið er að hafi fengið 150 milljónir Bandaríkjadala í sinn hlut þegar hann samdi við LIV Golf, hafnaði í 8. sæti á 1 höggi undir pari. Englendingurinn Ian Poulter lék hringina þrjá á 5 höggum yfir pari og hafnaði í 20.-21. sæti. Sergio Garcia frá Spáni lék samtals á 6 höggum yfir pari og hafnaði í 22.-24. sæti. Englendingurinn, Lee Westwood, hafnaði í 29. sæti á 8 höggum yfir pari. Bandaríkjamaðurinn Phil Mickelson, sem talið er að hafi fengið um 200 milljónir Bandaríkjadala fyrir að leika í viðburðum á vegum LIV Golf, lék hringina þrjá samtals á 10 höggum yfir pari og hafnaði í 33.-37. sæti. Bandaríkjamaðurinn Andy Ogletree, sem lék hringina þrjá á 24 höggum yfir pari og hafnaði í 48. og síðasta sætinu á mótinu fékk 120.000 Bandaríkjadali í sinn hlut.
Næsta mót á LIV Golf Invitational mótaröðinni fer fram um næstu mánaðamót á Pumpkin Ridge í Portland. Viaplay sýnir beint frá öllum mótum á mótaröðinni.