Örninn útsala 25
Örninn útsala 25

Fréttir

Böðvar Bragi Pálsson er kylfingur vikunnar
Böðvar Bragi Pálsson
Fimmtudagur 15. desember 2016 kl. 10:00

Böðvar Bragi Pálsson er kylfingur vikunnar

Kylfingur vikunnar að þessu sinni er ungur og efnilegur kylfingur úr GR, Böðvar Bragi Pálsson.
Hann er 13 ára gamall og á að baki einn sigur á Íslandsbankamótaröð unglinga í golfi. Böðvar Bragi lék í flokki 13-14 ára á Íslandsbankamótaröðinni í sumar og endaði í öðru sæti á stigalista mótaraðarinnar ásamt því að verða Íslandsmeistari með sveit GR á Íslandsmóti golfklúbba í flokki 15 ára og yngri.

Kylfingur.is fékk Böðvar Braga til að svara nokkrum laufléttum spurningum.

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvers vegna?

Böðvar Bragi

Ég fékk plastkylfur þegar ég var 1 árs, fyrstu alvöru kylfuna 2 ára og fór á fyrstu golfæfinguna 6 ára. Fjölskyldan mín er í golfi og kynnti mig fyrir íþróttinni. Ég hef elskað golf síðan.

Æfir þú einhverjar aðrar íþróttir?

Nei, en ég æfði fótbolta þangað til ég var 10 ára.

Helstu afrek í golfinu?

Mitt helsta afrek var þegar ég vann fyrsta mótið á Íslandsbankamótaröðinni 14 ára og yngri 2015 á Akranesi, þá var ég 12 ára. Í sumar vann mín sveit fyrsta sætið á Íslandsmóti golfklúbba og ég var í öðru sæti í stigakeppninni á Íslandsbankamótaröðinni. Ég var klúbbmeistari GR árin 2014 og 2015 og var valinn efnilegasti kylfingur GR árin 2013 og 2014.

Hvað er það neyðarlegasta sem komið hefur fyrir þig á golfvellinum?

Það var á fyrsta teig í Meistaramóti í Grafarholti árið 2013 og ég rakst í kúluna í æfingarsveiflu. Það voru margir áhorfendur og sumir sögðu að þetta hefði verið högg.

Hver er þinn helsti styrkleiki og veikleiki í golfi?

Stutta spilið er minn helsti styrkleiki og veikleiki minn er ekki nógu mikil þolinmæði.

Hverjir eru uppáhalds kylfingarnir?

Tiger Woods, Bubba Watson og Andri Þór Björnsson

Hefur þú farið holu í höggi eða verið nálægt því?

Þegar ég var 10 ára fór ég holu í höggi á 17. holu á Korpunni.

Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?

Þeir eru nokkrir frægir, meðal annars Laddi, Þorgrímur Þráinsson, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Guðjón Þórðarson.

Hver er besti kylfingurinn sem þú hefur leikið með?

Andri Þór Björnsson

Hvaða keppnisfyrirkomulag er skemmtilegast í golfi og hvers vegna?

Fjórmenningur þá er erfitt að bjarga sér þegar annar leikmaðurinn klúðrar.

Hvaða íslenski kylfingur er sá besti frá upphafi?

Úlfar Jónsson

Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf?

Nei ég myndi ekki segja það

Hvert er uppáhaldshöggið í golfi?

70 metra högg með 58 gráðu fleygjárni

Eftirminnilegasti golfvöllur sem þú hefur leikið á?

Novo Sancti Petri á Spáni

Hvað finnst þér skemmtilegast og leiðinlegast við golf?

Að spila og félagsskapurinn er það skemmtilegasta. Leiðinlegast er að missa stutt pútt.

Hvað er það sem þú þarf mest að bæta í þínum golfleik?

Ég þarf aðeins að bæta þolinmæðina.

Getur þú sagt okkur frá eftirminnilegri golfsögu af þínum golfferli?

Það var mjög eftirminnilegt á Íslandsmóti golfklúbba í sumar þegar ég og Tommi, félagi minn í fjórmenningi, lentum í bráðabana í úrslitaleiknum og ég setti lokapúttið í fyrir fugli á 19.

Það var líka mjög skemmtilegt að vera kylfusveinn hjá Andra Þór Björnssyni þegar hann fór á -8 á fyrsta hring á Eimskipsmótaröðinni í sumar í Mosfellsbæ og endaði með því að vinna mótið.

Hvaða þrjár golfholur hér á landi eru í sérstöku uppáhaldi?

12. holan á Korpu, 6. holan á Garðavelli og 16. holan á Hamarsvelli. 

Hvaða golfholu myndir þú sprengja í loft upp ef þú gætir?

9 holuna í Keili.

Staðreyndir:

Nafn: Böðvar Bragi Pálsson
Aldur: 13 ára
Klúbbur: Golfklúbbur Reykjavíkur
Forgjöf: 4,6
Fyrirmynd: Bubba Watson
Masters eða Opna breska? Masters 
Skógarvöllur eða strandvöllur?  Skógarvöllur
Uppáhaldslið í enska boltanum? Chelsea 
Tiger Woods eða Rory McIlroy?  Tiger Woods
Uppáhalds matur:  Gúllassúpan hennar mömmu
Uppáhalds drykkur: Vatn
Uppáhalds golfhola: 12. holan á Korpu
Erfiðasta golfholan: 5. holan á Leirunni
Ég hlusta á:  Popptónlist
Besti völlurinn: Sjórinn-Áin á Korpunni.
Besta skor: 66  Áin-Landið á Korpu á bláum.
Besta vefsíðan: Kylfingur.is
Besta bíómyndin: War Dogs
Boltinn í pokanum: Titleist pro v1x
Kylfur: Taylormade driver og 3tré,Titleist járn, Titleist vokey fleygjárn,Titleist  Scotty Cameron pútter
Skór: Nike Lunar

Ísak Jasonarson
[email protected]