Fréttir

Andri Þór á 5 höggum undir pari eftir tvo hringi í Danmörku
Andri Þór Björnsson. Ljósmynd: golfsupport.nl/Martin Groebner
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
fimmtudaginn 9. júní 2022 kl. 13:15

Andri Þór á 5 höggum undir pari eftir tvo hringi í Danmörku

Aron Snær kom til baka og er á 2 höggum undir pari

Andri Þór Björnsson úr GR lék vel á öðrum hring á Thomas Bjørn Samsø Classic en mótið er hluti af Ecco mótaröðinni (Nordic Golf League). Andri Þór kom í hús á 2 höggum undir pari vallarins og er sem stendur í 10. sæti á mótinu á samtals 5 höggum undir pari.

Aron Snær Júlíusson úr GKG lék enn betur í dag og kom í hús á 3 höggum undir pari. Hann er sem stendur í 24.-31. sæti á 2 höggum undir pari. Hákon Harðarson, sem leikur fyrir Roya Golfklúbbinn í Danmörku kom í hús á 1 höggi undir pari og er samtals á 2 höggum undir pari. Hann er sem stendur í 24.-31. sæti, rétt eins og Aron Snær. Áætluð niðurskurðarlína er við 2 högg undir par en enn eiga margir kylfingar efir að ljúka leik.

Thomas Bjørn, fyrrverandi fyrirliði Ryder-bikarliðs Evrópu er gestgjafi mótsins og hann tekur þátt á mótinu. Bjørn hefur m.a. á farsælum ferli sigrað á 15 mótum á Evrópumótaröðinni. Daninn snjalli kom í hús á 7 höggum undir pari í dag og er sem stendur í 3.-4. sæti á 9 höggum undir pari.

Annar Dani, John Axelsen leiðir mótið sem stendur. Hann kom í hús á 6 höggum undir pari í dag og er samtals á 13 höggum undir pari, tveimur höggum á undan Niclas Weiland frá Svíþjóð.

Staðan á mótinu

Þeir Axel Bóasson úr GK og Bjarki Pétursson úr GKG fóru út á annan hringinn núna rétt fyrir tólf en þeir voru í 5.-9. sæti á 4 höggum undir pari eftir fyrsta hringinn.

Fylgst verður vel með hér á kylfingur.is.

Skorkort Andra Þórs

Skorkort Arons Snæs

Skorkort Hákons

Skorkort Thomas Bjørn