Fréttir

Vu hélt uppi hefðinni
Mánudagur 24. apríl 2023 kl. 06:23

Vu hélt uppi hefðinni

Fyrsta risamótinu á LPGA lauk í gær með sigri Lilia Vu eftir æsispennandi keppni þar sem hún sigraði Angel Yin í bráðabana.

Leikið var á Chevron mótinu í fyrsta skipti á The Club at Carlton Woods í Texas eftir 51 ár á hinum sögufræga Mission Hills Country Club. Þar hafði myndast sú hefð að sigurvegarinn í mótinu stökki í vatnið við 18.flötina. 

Aðstæður í Carlton Woods eru töluvert aðrar en á Mission Hills þar sem vatnið við lokaholuna var nánast eins og sundlaug. Miklar ráðstafanir höfðu verið gerðar á Carlton Woods m.a. hafði vatnið verið slóðadregið til að tryggja að þar væru engir krókódílar. Vu var ekki á því að láta hefðina fljúga út um gluggann heldur stökk með glæsibrag útí vatnið eftir sigurinn. 

„Ég var búinn að segja við kylfuberann minn að ég myndi að sjálfsögðu stökkva út í vatnið að leik loknum ef ég myndi vinna. Svo sá ég snák í tjörninni á 17. og fékk smá bakþanka en eftir sigurinn tók gleðin bara völdin og ég bara lét vaða“, sagði Vu í skýjunum eftir sigurinn.

Lilja Vu lék á 10 höggum undir pari eins og Angel Yin. Vu var á undan í hús með skorið og Yin var þá úti á velli með forystu. Yin fékk hinsvegar 2 skolla á 15.og 16., sem settu Vu í bílstjórasætið. Fugl frá Yin á 17. og par á 18. komu henni í bráðabanann þar sem Lilia Vu bar sigur úr býtum. Nelly Korda var í þriðja sæti á 9 höggum undir pari. Lilia Vu fékk fyrir sigurinn $765.000 eða andvirði 107 milljóna íslenskra króna.