Fréttir

Tiia Koivisto sigraði á Jabra Ladies Open
Tiia Koivisto með bikarinn. Ljósmynd: Tristan Jones/LET
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
mánudaginn 23. maí 2022 kl. 11:53

Tiia Koivisto sigraði á Jabra Ladies Open

Jabra Ladies Open á Evrópumótaröðinni lauk á laugardag með sigri hinnar finnsku Tiia Koivisto á fyrstu holu bráðabana gegn Whitney Hillier frá Ástralíu, sem leiddi fyrir lokahringinn. Koivisto lék á 66 höggum á lokahringnum og tryggði sér bráðabana með fugli á 18. holu. Hillier, sem var þremur höggum á undan hinni finnsku fyrir hringinn, lék á 69 höggum. Báðar luku þær leik á samtals 6 höggum undir pari.

Okkar konur, Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR, voru á meðal þátttakenda en komust ekki í gegnum niðurskurðinn að þessu sinni. Guðrún Brá var grátlega nálægt en hún tapaði sex höggum á síðustu fimm holunum og var einu höggi frá því að komast áfram.

Næsta mót á Evrópumótaröðinni er í Belgíu dagana 27.-29. maí. nk. Ólafía Þórunn er skráð til leiks en Guðrún Brá mun hlaða batteríin og koma aftur inn á mótaröðina á Ladies Italian Open 2.-4. júní nk.