Þrisvar holu í höggi á innan við viku
Michael McGinley mun seint gleyma viku einni í febrúar en Michael þessi er bróðir Paul McGinley sem var m.a. fyrirliði Evrópuliðsins í Ryder Cup á síðasta ári sem vann Bandaríkin eftirminnilega.
Michael sem er meðlimur í Dubai Creek Golf & Yacht klúbbinum var við leik á vellinum þessa viku og gerði sér lítið fyrir og fór þrisvar sinnum holu í höggi á þeim tíma.
Fyrsta skiptið af þessum þremur höggum kom 12. febrúar og notaði hann til verksins 4 járn á 4. teig Jumeirah Golf Estates Earth vellinum.
Daginn eftir eða föstudaginn þrettánda, sem er greinilega ekki óhappadagur allra, notaðist hann við 9 járn +a 5. teig á heimavelli sínum Dubai Creek en þarna var hann kominn með tvo ása á jafn mörgum dögum.
Þriðji ásinn kom svo þann 17. febrúar aðeins fimm dögum eftir þann fyrsta. Þá var Michael aftur við leik á heimavelli sínum en núna á 8. teig og aftur var hann með 9 járn í höndunum.
„Þetta er alveg mögnuð tilfinning. Ég fór holu í höggi þegar ég var 15 ára en hef ekki gert það aftur, fyrr en núna.“