Fréttir

Ný inniaðstaða hjá Golfklúbbi Akureyrar opnuð -enn eitt metárið hjá klúbbnum
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 22. desember 2024 kl. 11:24

Ný inniaðstaða hjá Golfklúbbi Akureyrar opnuð -enn eitt metárið hjá klúbbnum

Ný og glæsilegt inniaðstaða hjá Golfklúbbi Akureyrar að Jaðri var opnuð 14. desember síðastliðinn en þá var einnig haldinn aðalfundur GA. Voru gestir tæplega 100 á fundinum og vígsluathöfninni. 

Halldór M. Rafnsson, heiðursfélagi GA, ásamt Huldu Bjarnadóttur, forseta GSÍ, klipptu á rauða borðann í nýrri inniaðstöðunni áður en gestir gátu fengið að sjá aðstöðuna og gæddu sér síðan á snittum og drykkjum að fundi loknum.

Hagnaður ársins nam 18.758.503 kr. eftir fjármagnsliði samanborið við 12.195.043 kr. árið áður. Rekstartekjur voru rúmlega 265 milljónir og rekstrargjöld 243,5 milljónir með afskriftum upp á rúmlega 17,6 milljónir. EBITDA rekstrarársins var 39,2 milljón sem er hækkun upp á 26,5%

„Reksturinn gekk vel á árinu og hefur aldrei verið jafn mikil fjölgun á meðlimum og var í ár. Völlurinn var áfram afar eftirsóttur og enn eitt metárið í spiluðum hringjum. Golfmótin okkar eru ótrúlega vel sótt svo biðlistar hafa myndast,“ sagði Steindór K. Ragnarsson, framkvæmdastjóri GA.

Steindór segir að aðstaðan hafi tekið stakkaskiptum á Jaðri í ár en bygging inniaðstöðunnar gekk frábærlega. „Framkvæmdir við grunninn hófust 28.sept 2023 eða fyrir rétt rúmu ári. Rétt rúmlega tólf mánuðum síðar var aðstaðan tekin í notkun, golfhermar og púttaðstaða,“ sagði Steindór.

Kostnaður við inniaðstöðuna var undir kostnaðaraáætlun. Að sögn Steindórs, stóð GA straum af öllu innvolsi og allur búnaður til golfiðkunar innandyra er kostaður af GA og hleypur á tugum milljóna. „Eins og fram hefur komið er GA framkvæmdaraðili og höfum við átt í frábæru samstarfi við alla þá aðila sem að þessari byggingu hafa komið og berum við þeim bestu þakkir. Það er ljóst að án aðkomu þessara aðila hafi útkoman verið allt önnur. Mikilvægt er að nefna að starfsmenn GA og sjálfboðaliðar hafa unnið dag og nótt við verkið allt frá byrjun og er það einnig ómetanlegt," sagði Steindór á heimasíðu GA.

Bryndís Eva Ágústsdóttir hlaut háttvísisbikar GA, Andrea Ýr Ásmundsdóttir er kvenkylfingur GA 2024 og Veigar Heiðarsson er kylfingur GA 2024.