Fréttir

Þorbjörn Kjærbo látinn
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 19. apríl 2023 kl. 13:35

Þorbjörn Kjærbo látinn

Þorbjörn Kjærbo, heiðursfélagi í Golfklúbbi Suðurnesja og fyrsti Íslandsmeistari karla í klúbbnum lést 6. apríl, 95 ára að aldri.

Þorbjörn Kjærbo fæddist í Sumba á Suðurey í Færeyjum 27. mars 1928 og var þar fyrstu tvö ár ævi sinnar. Þorbjörn var kvæntur Guðnýju Sigurbjörgu Ragnarsdóttur en hún lést árið 2013. Synir þeirra eru Guðni Björn, fæddur árið 1952 og Jóhann Rúnar, fæddur árið 1957. Fyrir átti Þorbjörn dótturina Guðrúnu Björgu sem er fædd árið 1947. Hann starfaði lengst af sem tollvörður á Keflavíkurflugvelli en vann ýmis önnur störf áður.

Þorbjörn var einn stofnfélaga Golfklúbbs Suðurnesja og var fyrsti gjaldkeri klúbbsins, sinnti því embætti í þrjú ár, var síðan varaformaður GS næstu fimm ár á eftir og sat einnig í kappleikjanefnd. 

Hann var 35 ára þegar hann heillaðist af íþróttinni, varð fljótt besti kylfingur GS og  klúbbmeistari í fyrsta sinn af tíu skiptum árið 1965, síðast árið 1981. Fertugur að aldri varð hann Íslandsmeistari karla en hann vann titilinn þrjú ár í röð, 1968 til 1970. Hann var í titilbaráttunni öll ár næsta áratuginn og varð í 3. sæti árið 1978, þegar hann var fimmtugur.  

Þorbjörn lét ekki sitt eftir liggja þegar hann varð 55 ára, keppti þá í öldungaflokki og varð Íslandsmeistari öldunga fjórum sinnum. Hann var fyrst valinn í landsliðið 1966 og lék á móti í Mexíó. Þorbjörn keppti á mörgum alþjóðlegum mótum fyrir hönd Íslands, m.a. Þegar Norðurlandamótið var haldið í Grafarholti árið 1974. Hann lék líka mörgum sinnum í landsliði öldunga. 

Þorbjörn var mikill keppnismaður og vakti athygli fyrir mjúka „vinstri“ sveiflu en kappinn var örvhentur. Þá var hann var iðinn við að aðstoða félaga í klúbbnum og kenndi mörgum eldri og yngri kylfingum réttu handtökin í golfíþróttinni. Sjálfur náði hann svona góðum tökum á íþróttinni með því að lesa sig til í blöðum og kennslubókum um golf.

Þorbjörn var gerður að heiðursfélaga í Golfklúbbi Suðurnesja árið 2009. Hann lék golf langt fram á níræðisaldurinn.

Útför Þorbjarnar fór fram frá Keflavíkurkirkju 18. apríl.

Þorbjörn púttar á flöt árið 1965 en þá fagnaði hann sínum fyrsta klúbbmeistaratitili. Það er gaman að bera saman myndina við svæðið eins og það lítur út í dag.

Þorbjörn var duglegur að æfa sig, hér er hann á 8. flöt.

Þorbjörn varð Íslandsmeistari 1968 til 1970. Hér má sjá á verðlaunabikurunum - Golfmeistari Íslands 1968 og 1969.