PGA: Tveir jafnir í efsta sæti eftir fyrsta hring
Fyrsti hringur á PGA meistaramótinu var leikinn í dag, en mótið er fjórða og síðasta risamót ársins. Leikið er í Norður-Karólínu fylki í Bandaríkjunum. Eftir daginn eru tveir jafnir í efsta sæti en það eru þeir Thorbjorn Olesen og Kevin Kisner. Báðir léku þeir á fjórum höggum undir pari í dag.
Olesen fékk á sínum hring sex fugla, tvo skolla og restin pör og kom því í hús á 67 höggum, eða fjórum höggum undir pari. Kisner gerði slíkt hið sama og fékk einnig sex fugla, tvo skolla og restina pör. Hann fékk þrjá fugla í röð á holum 6 til 8.
Fimm kylfingar eru jafnir í þriðja sæti á þremur höggum undir pari, einu höggi á eftir. Það eru þeir Grayson Murray, Gary Woodland, Brooks Koepka, Chris Stroud og D.A. Points.
Jordan Spieth á möguleika á að verða yngsti kylfingur í sögunni til að ná feril slemmunni. Hann lék á einu höggi yfir pari í dag og er jafn í 33. sæti. Hann þarf því að setja í gírinn, ætli hann sér að ná að sigra.
Thorbjorn Olesen er jafn í fyrsta sæti.