Fréttir

Golfstöðin: Miðstöð til bætinga
Bjarni aðstoðar Ragnhildi Kristinsdóttur, atvinnukylfing.
Laugardagur 4. janúar 2025 kl. 11:49

Golfstöðin: Miðstöð til bætinga

Sprenging í aðsókn 50 ára og eldri keppniskylfinga

Golfstöðin í Glæsibæ var stofnuð af sjúkraþjálfaranum Bjarna Má Ólafssyni, sem hafði þá sýn að opna alhliða æfingastöð fyrir kylfinga. Í Golfstöðinni eru tveir Trackman golfhermar, en þar er einnig líkamsræktarsalur og sjúkraþjálfunaraðstaða fyrir golfara eftir stækkun á árinu.
Æfingastöð fyrir kylfinga

„Nú má segja að upphaflegi draumurinn minn um aðstöðuna í Golfstöðinni sé að verða að veruleika“ segir Bjarni Már Ólafsson, eigandi Golfstöðvarinnar. „Upphaflega hugmyndin var nefnilega þessi, að Golfstöðin væri miðstöð til bætinga þar sem hægt væri að sinna öllum hliðum leiksins. Golfinu og líkamlega þættinum. Eftir að ég stækkaði stöðina núna í byrjun árs gat ég tekið langþráð skref og hætt allri þjálfun annars staðar og farið í fullt starf við þjálfun og sjúkraþjálfun golfara í minni eigin aðstöðu.”

Bjarni Már er sjúkraþjálfari og einkaþjálfari og starfaði í Hreyfingu frá 2015 til 2024, þegar hann flutti alla sína þjálfun og meðferðir yfir í Golfstöðina. „Ég var alltaf með marga golfara í þjálfun hjá mér í Hreyfingu þar sem ég hafði unnið síðan 2015. Ég smitast sjálfur af golfbakteríunni fyrir nokkrum árum og verð í framhaldinu æstur í að stúdera styrktarþjálfun golfara, fer í TPI nám sem snýr að hreyfigreiningu og þjálfun golfara, og þá kviknar þessi hugmynd að Golfstöðinni.“

Hóptímar fyrir kylfinga á öllum getustigum

Í golfstöðinni er boðið upp á hóptíma í líkamsrækt.

„Þetta hefur farið ofsalega vel af stað. Það er fljótt að spyrjast út þegar einn úr golfhópnum fer að styrkjast og lengja höggin, þá er restin af hópnum yfirleitt skammt undan“ segir Bjarni og skellir uppúr. „Það vekur líka athygli þegar maður hjálpar fólki sem er þekkt í golfhreyfingunni, og það hefur hjálpað mér. Margir hafa komið til mín því þau vissu að ég hjálpaði Úlfari Jóns með kylfuhraða og síðar Röggu Kristins sem ég hef mikið unnið með. Jói í GB ferðum er líka frábært dæmi um hvað 50+ keppnisgolfarar geta breytt miklu með dugnaði og aga utan vallar.“

Hópurinn sem Bjarni Már vinnur með er fjölbreyttur, allt frá byrjendum upp í atvinnukylfinga.

„Sumir koma til mín vegna liðskipta, brjóskloss og hinna ýmsu líkamlegu meina og vilja aðstoð við að komast aftur í golfið. Aðrir vilja bara vinna í almennu formi, líða betur líkamlega og spila betra golf. Svo er það upp í afrekskylfinga sem vilja vinna í einhverju mjög sértæku; kylfuhraða, álagsmeiðslum eða einhverjum líkamlegum atriðum sem smitast yfir í sveifluna þeirra.“

Bjarni Már segir sprengingu í aðsókn 50 ára og eldri keppniskylfinga. ,,Það er mikill metnaður hjá mörgum þeirra og þau vilja gera allt sem þau geta til að haldast á háu getustigi. Það eru komnar mjög flottar fyrirmyndir í því hvernig hægt er að halda sér í góðu standi með réttri styrktarþjálfun og sveifluþjálfun. Ef þú gerir ekkert ertu bara að fara að styttast og stífna með hverju árinu sem líður en það er svo sannarlega hægt að taka harkalega í handbremsuna með réttri þjálfun.“

Í Golfstöðinni stundar stærsti hópurinn Golfstyrk, hóptímana fyrir kylfinga á öllum getustigum. Það eru 8 tímar í töflu vikunnar, að morgni, í hádeginu og seinnipartinn. Þeir sem eru skráðir mega mæta í 3 tíma að eigin vali, þegar hentar þeirra dagskrá. ,,Hér eru líka sérstakir hóptímar fyrir 60 ára og eldri, og svo eru tímar á vorönn sem eru sambland af golfæfingum í hermum og styrktaræfingum, en þeir voru mjög vinsælir síðasta vor. Hlöðver Guðna Pga kennari hefur verið með mér að kenna í þeim tímum. Hann sérhæfir sig einmitt í golfkennslu fólks með stoðkerfisvanda. Það er ekki amalegt að geta sameinað líkamsræktina og golfæfingar og afgreitt það samhliða undir einu þaki” segir Bjarni Már.