Fréttir

PGA: Nick Taylor efstur á AT&T Pebble Beach
Nick Taylor.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 6. febrúar 2020 kl. 22:10

PGA: Nick Taylor efstur á AT&T Pebble Beach

Mót vikunnar á PGA mótaröðinni er AT&T Pebble Beach Pro-Am sem haldið er á Pebble Beach, Spyglass Hill og Monterey Peninsula golfvöllunum í Kaliforníu. Fyrsti hringur mótsins fór fram í dag og er það Kanadabúinn Nick Taylor sem leiðir á 8 höggum undir pari.

Taylor lék fyrsta hringinn á Monterey vellinum og byrjaði daginn með látum strax á sinni fyrstu holu þegar hann fékk örn. Á næstu 17 holum bætti hann við sig 6 fuglum og er með tveggja högga forystu á Patrick Cantlay og Chase Seiffert þegar flestir kylfingar hafa lokið leik á fyrsta keppnisdegi.

Líklega þekkja fáir lesendur Kylfings umræddan Taylor en hann hefur þó sigrað á PGA mótaröðinni. Taylor sigraði á Sanderson Farms Championship árið 2014 þegar hann var á sínu fyrsta ári á mótaröðinni.

Sigurvegari síðasta árs, Bandaríkjamaðurinn Phil Mickelson, fór vel af stað í ár og er á 4 höggum undir pari. Mickelson lék fyrsta hringinn á Spyglass Hill vellinum.

Staða annarra þekktra kylfinga að eftir fyrsta hring:

11. Jason Day, -4
22. Dustin Johnson, -3
45. Jordan Spieth, -2
74. Luke Donald, Par
156. David Duval, +12

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.