Fréttir

Perla Sól sigraði á European Young Masters
Perla Sól Sigurbrandsdóttir með bikarinn. Ljósmynd: GSÍ
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
sunnudaginn 24. júlí 2022 kl. 06:15

Perla Sól sigraði á European Young Masters

Fyrsti íslenski kvenkylfingurinn sem sigrar á mótinu

Perla Sól Sigurbrandsdóttir úr GR sigraði á European Young Masters en mótið, sem er fyrir kylfinga, 16 ára og yngri, hófst á fimmtudag og lauk nú fyrir skömmu.

Perla Sól sat í 2.-4. sæti fyrir lokahringinn, þremur höggum á eftir Inês Belchior frá Portúgal. Hún lék á 72 höggum eða á pari Linna vallarins í Finnlandi á bæði fyrsta og öðrum hring.

Margeir golfferð
Margeir golfferð

Perla hóf hringinn með látum í dag og var kominn á 3 högg undir par að loknum 5 holum. Tveimur skollum um miðbik hringsins svaraði hún með góðum fugli á 13. holu. Hún sigldi svo lignan sjó það sem eftir lifði dags og leiddi með einu höggi fyrir lokaholuna er sú portúgalska tapaði tveimur höggum á 17. holu. Perla Sól tryggði sér svo sigurinn á 18. holunni með góðu parpútti - glæsilegur árangur.

Perla Sól Sigurbrandsdóttir er fyrst íslenskra kvenkylfinga til að sigra á mótinu en Ómar Halldórsson úr GA sigraði á Evrópumeistaramóti unglinga árið 1997 og hafa því íslenskir kylfingar sigrað bæði í flokki drengja og stúlkna.

Perla Sól, sem er á 16. aldursári, lék hringina þrjá á 214 höggum (72-72-70) eða samtals á 2 höggum undir pari vallarins. Kristina Lebova frá Tékkland, Anna Cañado frá Spáni og títtnefnd Belchior höfnuðu í 2.-4. sæti á 1 höggi undir pari.

Auk Perlu Sólar, léku á mótinu þau Helga Signý Pálsdóttir einnig úr GR og Skúli Gunnar Ágústsson og Veigar Heiðarsson úr GA. Helga Signý lék á 239 höggum (77-88-74) eða á 23 höggum yfir pari og hafnaði í 39.-40. sæti. Veigar Heiðarsson lék á 231 höggi (75-80-76) eða samtals á15 höggum yfir pari og hafnaði í 37.-38. sæti. Skúli Gunnar lék á 241 höggi (80-83-78) eða samtals á 25 höggum yfir pari og hafnaði í 50.-51. sæti.

Lið Íslands hafnaði í 14. sæti í liðakeppninni á samtals 31 höggi yfir pari en talin voru þrjú bestu skorin á hverjum hring.

Lokastaðan á mótinu

European Young Masters er gríðarlega sterkt mót en yfir 70 kylfingar eru með 0 eða lægri forgjöf. Um 30 kylfingar eru með +3 eða lægri forgjöf en lægsta forgjöfin er +5,7. Perla Sól er með lægstu forgjöfina í íslenska liðinu eða +3,5. Skúli Gunnar er með 1,0, Veigar er með 1,1 og Helga Signý er með 1,7 í forgjöf.

Alls tóku 117 kylfingar þátt á mótinu frá 31 þjóðríki.

Helga Signý Pálsdóttir, Perla Sól Sigurbrandsdóttir, Veigar Heiðarsson og Skúli Gunnar Ágústsson. Ljósmynd: GSÍ