Okkar konur úr leik í Frakklandi
Guðrún Brá grátlega nálægt niðurskurðinum
Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR, luku leik á Jabra Ladies Open á Evrópumótaröðinni í dag en leikið er á Evian Resort í Frakklandi.
Guðrún Brá kom í hús á 76 höggum í dag eða á 5 höggum yfir pari og var samtals á 8 höggum yfir pari á hringjunum tveimur, aðeins einu höggi frá niðurskurðinum. Ólafía Þórunn lék á 77 höggum í dag eða á 6 höggum yfir pari og var samtals á 14 höggum yfir pari vallarins á hringjunum tveimur.
Það er hin ástralska, Whitney Hillier, sem leiðir á 4 höggum undir pari fyrir lokahringinn á morgun.
Guðrún Brá var ræst út á 6. teig í dag. Hún byrjaði vel og var komin 2 högg undir par á hringnum þegar hún steig upp á 10. teiginn. Hún fékk skolla á 10. braut en svaraði honum með fugli á þeirri 11. Tveimur skollum á 12. og 13. braut svaraði hún með fugli á 14. braut. Guðrún fékk þá þrjú pör í röð á 15., 16. og 17. braut og var á 1 höggi undir pari á hringnum þegar hún steig upp á 18. teig. Þá dundi ógæfan yfir og Guðrún Brá tapaði 6 höggum á síðustu 5 holunum á hringnum – fékk fjóra skolla og einn tvöfaldan skolla.
Ólafía Þórunn var ræst út á 15. teig í dag. Hún fékk skolla á fyrstu þrjár holurnar áður en hún fékk fugl á þá 18. Hún svaraði skolla á 3. braut með fugli á þeirri 4. Á 5. braut fékk hún tvöfaldan skolla og svo skolla á 7. braut. Þá fékk Ólafía tvöfaldan skolla á þeirri 8. Hún svaraði með fugli á 9. braut og svo komu fjögur pör í röð á 10.-13. braut. Ólafía fékk svo skolla á 14. og síðustu holu dagsins.
Næsta mót á Evrópumótaröðinni er í Belgíu dagana 27.-29. maí. nk. Ólafía Þórunn er skráð til leiks en Guðrún Brá mun hlaða batteríin og koma aftur inn á mótaröðina á Ladies Italian Open 2.-4. júní nk.