Fréttir

Nýtt hlaðvarp um golf - seinni níu
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 11. apríl 2024 kl. 14:04

Nýtt hlaðvarp um golf - seinni níu

Þeir Jón Júlíus Karlsson og Logi Bergmann Eiðsson hafa sett nýtt hlaðvarp um golf í loftið og er fyrsti þátturinn kominn á streymisveitur. Hlaðvarpið fékk nafnið Seinni níu og að þeirra sögn stefnt að því að fjalla um golfíþróttina á léttum nótum.

Þeir félagar hafa báðir starfað í fjölmiðlum og fjallað um golf og hafa stundað íþróttina í all nokkur ár.

Í Seinni níu verður að þeirra sögn að farir yfir það helsta sem er í gangi í íþróttinni hverju sinni, það helsta í keppnisgolfinu en lögð verður sérstök áhersla á að fjalla um áhugagolf og golf hér heima á Íslandi.

„Við stefnum að því að vera ca. vikulega með nýjan þátt og hafa léttleikann í fyrirrúmi. Við munum fá til okkar kylfinga í heimsókn af alls konar getustigi og ræða um golfið frá ýmsum hliðum,“ segir Logi Bergmann Eiðsson sem er reyndur fjölmiðlamaður. Logi er með um 9 í forgjöf og mikill golfáhugamaður.

„Okkur fannst vanta hlaðvarp um golf inn á markaðinn hér heima og ákváðum því að slá til. Þetta verður vonandi mjög skemmtilegt sumar og við vonum að íslenskir kylfingar taki þessu framtaki vel,“ segir Jón Júlíus Karlsson, sem er með 4,5 í forgjöf.

Í fyrsta þættinum af Seinni níu er Masters mótið til umfjöllunar og spáð í spilin. Seinni níu er aðgengilegt á helstu hlaðvarpsveitum (Spotify, Soundcloud og Apple Podcast).