LPGA: Ótrúlegur endir Kim tryggði henni sigurinn
A Lim Kim þurfti að hafa fyrir sigrinum á Opna bandaríska kvennamótinu sem kláraðist í dag en þetta var lokaristamót ársins í kvennagolfinu. Kim var að leika í mótinu í fyrsta sinn á sínum ferli.
Vegna veðurs var leik aflýst í gær og þurfti því að ljúka við síðasta hringinn í dag. Að þessu sinni var það Champions klúbburinn í Texas sem hélt mótið og var leikið á báðum völlunum, Cypress Creek vellinum og Jackrabbit vellinum. Síðustu tveir hringir mótsins voru leiknir á Cypress Creek vellinum.
Fyrir daginn var Hinako Shibuno í forystu á fjórum höggum undir pari. Fljótlega á hringnum var hún búin að tapa niður forystunni og voru þá margir kylfingar sem áttu góðan möguleika á að landa titlnum.
Kim byrjaði daginn af miklu krafti og var búin að fá þrjá fugla á eftir átta holur og var hún þá jöfn Shibuno í efsta sætinu. Kim tapaði svo tveimur höggum á holum 10 og 11 og var hún höggi á eftir efsti kylfingum þegar hún átt þrjár holur eftir. Þá gerði hún sér lítið fyrir og fékk fugl á síðustu þrjár holurnar og kom sér þannig í efsta sætið á samtals þremur höggum undir pari.
Þær Jin Young Ko og Amy Olson komst nærst Kim en þær enduðu báðar á því að fá fugl og enduðu samtals á tveimur höggum undir pari.
Kim lék lokahringinn á 67 höggum, eða fjórum höggum undir pari, og fékk meðal annars sex fugla en engin fékk fleiri fugla á lokadeginum en hún. Hún var líka með flesta fugla í öllu mótinu eða 16 samtals.