LPGA: Hyo Joo Kim með nauma forystu
Þriðji hringurinn á Evian Championship mótinu var leikinn í Frakklandi í dag. Líkt og eftir annan hringinn sitja fjórar suður-kóreskar konur í efstu fjórum sætunum. Það er hins vegar Hyo Joo Kim sem hefur stolið efsta sætinu af samlöndu sinni Mi Hyang Lee en Kim er með eins höggs forystu, á samtals 15 höggum undir pari.
Kim lék hringinn í dag á 65 höggum eða 6 höggum undir pari. Á hringnum fékk hún 8 fugla, tvo skolla og restin pör. Einu höggi á eftir Kim er efsta kona heimslistans, Sung Hyun Park, á 14 höggum undir pari. Park lék hringinn í dag á 66 höggum eða fimm höggum undir pari.
Tvær konur eru svo jafnar í þriðja sæti á samtals 11 höggum undir pari, þær Jin Young Ko og Inbee Park.