Fréttir

Karen Guðnadóttir sigraði aftur á Eimskipsmótaröðinni
Karen Guðnadóttir. Mynd: [email protected]
Sunnudagur 20. ágúst 2017 kl. 16:03

Karen Guðnadóttir sigraði aftur á Eimskipsmótaröðinni

Lokadagur Securitasmótsins fór fram í dag þar sem leikið var um GR bikarinn. Mótið var lokamót tímabilsins 2016-2017 á Eimskipsmótaröðinni og því stigameistaratitill í húfi.

Í kvennaflokki stóð Karen Guðnadóttir uppi sem sigurvegari eftir að hafa leikið hringina þrjá á 11 höggum yfir pari. Hún lék sérstaklega vel í dag og kom inn á parinu eftir að hafa verið á fjórum höggum undir pari á tímabili.

Þetta er annar sigur Karenar á tímabilinu en hún stóð einnig uppi sem sigurvegari á Borgunarmótinu, sem var næst síðasta mót tímabilsins. Glæsilegur árangur hjá henni.

Berglind Björnsdóttir endaði önnur á 12 höggum yfir pari en hún varð jafnframt stigameistari Eimskipsmótaraðarinnar. Berglind var nánast undantekningalaust í toppbaráttunni á mótaröðinni en hún sigraði á tveimur mótum.

Gunnhildur Kristjánsdóttir endaði í þriðja sæti á 13 höggum yfir pari, tveimur höggum á undan Sögu Traustadóttur sem endaði fjórða.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Staða efstu kylfinga í kvennaflokki:

1. Karen Guðnadóttir, GS, +11
2. Berglind Björnsdóttir, GR, +12
3. Gunnhildur Kristjánsdóttir, GK, +13
4. Saga Traustadóttir, GR, +15
5. Ragnhildur Sigurðardóttir, GR, +17

Ísak Jasonarson
[email protected]