Karen er kylfingur vikunar - Á enn eftir að fara holu í höggi
Karen Sævarsdóttir, áttfaldur Íslandsmeistari kvenna í höggleik, er kylfingur vikunnar að þessu sinni. Hún er búsett í Keflavík og starfar sem golfkennari hjá Golfklúbbi Suðurnesja. Hún snéri aftur til Íslands fyrir nokkrum árum eftir langa dvöl í Bandaríkjunum. Hún stundar nám hjá LPGA í Bandaríkjunum og lýkur því námi innan skamms. Kylfingur.is fékk þennan reynda kylfing til að svara fyrir okkur nokkrum spurningum en hún er án nokkurs vafa sigursælasti einn kylfingur þjóðarinnar.
Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvers vegna?
Ég var ca. 5 ára þegar ég byrjaði í golfi. Foreldar mínir og bróðir minn spiluðu golf svo það var lítið annað fyrir mig að gera en að fara með.
Hefur þú verið í öðrum íþróttum?
Já, ég var aðeins í körfubolta og fótbolta, frjálsum, badminton og fleiru. Ég held ég hafi prófað flest allt.
Helstu afrek í golfinu?
Sjálfsagt allir mínir Íslandsmeistaratitlar sem eru 19 talsins. Þar ber hæst átta Íslandsmeistaratitlar í röð. Ég varð einnig holumeistari kvenna fjórum sinnum og unglingameistari sjö sinnum. Annars fannst mér frábært afrek að verða í 3. sæti ár eitt í kvennaflokki á Norðurlandamóti og í 2. sæti í Norðurlandamóti unglinga.
Hvað er það neyðarlegasta sem komið hefur fyrir þig á golfvellinum?
Sjálfsagt fullt en ekkert sem ég man vel eftir, ég einbeiti mér að því að muna allt það jákvæða. Eftir allt þetta golf sem ég hef spilað þá er oftast neyðarlegt þegar fólk spyr mig hversu oft ég hef farið holu í höggi og ég þarf að segja þeim að það hefur enn ekki gerst.
Ferðu í golfferð erlendis á næstunni og ef þá hvert?
Ég er búin að vera svolítið í Flórída undanfarna mánuði svo ég reikna ekki með fleiri ferðalögum 2011.
Hver er þinn helsti styrkleiki og veikleiki í golfi?
Án efa er styrkleikur minn hugurinn (mind game) en ef telja á líkamlega styrki þá hef ég alltaf slegið vel og frekar langt. Veikleikinn eru vipphögg eða 30-70 metrarnir.
Hverjir eru uppáhalds kylfingarnir (innlendur og erlendur) og af hverju?
Suzann Pettersen, sennilega þetta Skandinavíu loalty en Suzann er flottur spilari hvernig sem á er litið.
Ef ekki golf þá hvað?
Tennis.
Hefur þú farið holu í höggi eða verið nálægt því?
Ekki enn, það fer að koma að þessu. Ég hef óteljandi oft verið nálægt.
Hver er frægasta persónan sem þú er með í símanum?
Ætli það sé ekki Birgir Leifur Hafþórsson.
Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?
Annika Sörenstram.
Hvað keppnisfyrirkomulag er skemmtilegast í golfi?
Mér finnst höggleikur alltaf skemmtilegastur.
Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf?
Já, en ekkert alvarlegt held ég, bara svona dagsform. T.d. nota ég alltaf peninga sem grínmerki og þá sný ég því alltaf eins (en ekki sami peningurinn svo ég er ekkert svaka hjátrúarfull).
Hvert er uppáhaldshöggið í golfi?
Púttin.
Hver er besti kylfingur landsins og hver er efnilegastur að þínu mati?
Er hægt að segja annað en Birgir Leifur, maður sem vinnur bæði Íslandsmótið í höggleik og holukeppni. Frábær maður og kylfingur. Það eru margir efnilegir en ég verð að setja Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur í efsta sætið því hún er í hlutföllum (fjöldi kvk sem spila golf) þar sem mestir möguleikar eru.
Hvað finnst þér skemmtilegast og leiðinlegast við golf?
Skemmtilegast – ekkert högg, enginn dagur er eins. Leiðinlegast – að hafa ekki tíma til að spila
Getur þú sagt okkur frá eftirminnilegri golfsögu af þínum golfferli?
Já, það var Íslandmót á Hellu 1995. Ég varð Íslandmeistari í sjöunda sinn en hitti ekki eina braut allt mótið. Ég mun seint gleyma því.
Fylgist þú mikið með golfi (erlendum mótum eða mótaröðinni hér heima)?
Já, þó nokkuð hér heima og í USA. Ég gæti verið duglegri að fylgjast með Evrópu.
Staðreyndir:
Nafn: Karen Sævarsdóttir
Klúbbur: Golfklúbbur Suðurnesja
Forgjöf: 4.2 held ég en ekki viss
Golfpokinn: G15 Driver 10.5° og 18° 5-tré, G10 – 24° og 28°, G10 járn (6-pw), Cleveland CG 14 zip grooves fleygjárn, 56° 53° 50°48°, Ping Zing 2 pútter
Golfskór: Ecco
Golfhanski: Titlest
Fyrirmynd: Annika Sörenstam
Masters eða Opna breska? Masters
St. Andrews eða Pebble Beach? St. Andrews
Uppáhalds matur: Sushi
Uppáhalds drykkur: Íslenskt vatn
Uppáhalds golfhola: 15. holan í Grafarholti
Ég hlusta á: R&B og popp
Besti völlurinn: Úffff svo margir góðir - Ravenstain í Belgíu
Besta skor (hvar): Í móti -5 eða 67, var á Texas A&M velli
Besta vefsíðan: mbl.is
Besta blaðið: Það er gott að komast í golfblöð
Besta bókin: Your 15th club
Besta bíómyndin: Clueless
Besti kylfingurinn: Ben Hogan