Fréttir

Jordan Spieth sigraði á RBC Heritage
Jordan Spieth
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
sunnudaginn 17. apríl 2022 kl. 23:04

Jordan Spieth sigraði á RBC Heritage

Hafði betur gegn Patrick Cantlay á 1. holu bráðabana

RBC Heritage mótinu á PGA-mótaröðinni lauk nú fyrir skömmu með sigri Bandaríkjamannsins Jordan Spieth. Spieth hafði betur á fyrstu holu bráðabana gegn landa sínum Patrick Cantlay. Spieth var þremur höggum á eftir Harold Varner III sem leiddi fyrir lokahringinn en Cantlay var einu höggi á eftir Varner.

Lokastaðan á mótinu

Cantlay lék lokahringinn á 68 höggum eða á 3 höggum undir pari Harbour Town strandvallarins en Spieth lék á 66 höggum eða á 5 höggum undir pari. Þeir luku því báðir leik á 13 höggum undir pari samtals á hringjunum fjórum og þurfti bráðabana til að skera úr um sigurvegarann.

Þeir léku 18. brautina aftur og voru báðir á braut eftir upphafshöggið. Spieth var rúma 186 metra frá holu hægra megin á brautinni en Cantlay átti öllu lengra upphafshögg vinstra megin á brautina og skildi eftir tæpa 160 metra í holu.

Báðir voru þeir of stuttir í innáhögginu og lentu í glompu fyrir framan flötina, en það var nokkur mótvindur sem þeir misreiknuðu.

Spieth fékk góða legu í glompunni en Cantlay var óheppinn með legu og var bolti hans grafinn hálfur í sandinn svo hann átti erfitt með að stöðva hann við holuna og átti 10 metra pútt eftir fyrir pari. Spieth átti öllu þægilegra högg fyrir höndum úr glompunni sem hann leysti listavel og átti tæpa 20 sentímetra eftir fyrir parinu.

Cantlay missti púttið fyrir pari en Spieth setti sitt í fyrir sigrinum.

Þetta var fyrsti sigur Spieth á PGA-mótaröðinni síðan á Valero Texas Open í apríl í fyrra og var hann að vonum ánægður með hann.

Jóhann Frank Halldórsson, 17 ára GR-ingur, er í golfakademíu hjá JPGA í Suður-Karólínu og fékk hann tækifæri til að starfa á mótinu. Hlutverk Jóhanns á mótinu var að sjá um boltana fyrir kylfingana og var hann í mikilli nálægð við stjörnurnar í vikunni.

Jóhann sendi Kylfingi þetta skemmtilega myndefni frá bráðabananum. Kylfingur kann honum bestu þakkir fyrir.