Fréttir

Guðmundur Ágúst í Kóreu og keppir á mótaröðinni næstur vikurnar
Guðmundur við leik fyrr á árinu. Mynd/golfsupport.nl
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 26. apríl 2023 kl. 14:17

Guðmundur Ágúst í Kóreu og keppir á mótaröðinni næstur vikurnar

„Það er bara skítkalt hérna, bara svipað veður og heima á Íslandi en það er í góðu lagi. Ég komst inn í mótið í blálokin, var mættur á staðinn án þess að vera öruggur um þátttökurétt en komst inn,“ sagði Guðmundur Ágúst Kristjánsson, atvinnukylfingur sem keppir á móti á DP Evrópumótaröðinni í Suður Kóreu og á teigtíma um hádegisbil á fimmtudag.

Guðmundur hefur ekki leikið á mótaröðinni í rúman mánuð en leikur næstu þrjár vikurnar, tekur þá viku frí og keppir síðan næstu þrjár vikur eftir það. Hann segir að það hafi verið gott að fá hvíld og geta farið heim eftir góða syrpu í febrúar og fram í mars þar sem hann komst í gegnum niðurskurðinn á þremur mótum í röð. Á móti í Indlandi var hann í 2. sæti eftir 36 holur og var í lokaráshópi á þriðja keppnisdeg en lék illa seinni hluta mótsins. Hann var síðan högg frá því að komast í gegnum niðurskurðinn á móti í Kenýa í byrjun mars. Eftir fimm vikna hlé er hann aftur mættur á keppnisvöllinn. Hann er sem stendur í 195. sæti á stigalista DP mótaraðarinnar og hefur unnið sér inn um 3,3 milljónir króna í mótum ársins.

„Svona er lífið á mótaröðinni. Ég nýtti tímann til að hvíla heima á Íslandi en einnig til að æfa og var á Spáni. Nú er ég mættur aftur, vel stemmdur og hlakka til. Þetta er geggjaður golfvöllur.“ (Hannaður af Jack Nicklaus og hefur hýst Forsetabikarinn einu sinni).

Þú náðir ágætis árangri á þremur mótum í röð og höggi frá því að komast í gegnum fjórða mótið. Hvernig leggst þetta í þig?

„Ég er að slá fínt og vann aðeins í tæknivinnu í fríinu. Maður er svosem alltaf að því. Þetta er ákveðið flæði og oft stutt á milli að vera sjóðheitur eða ískaldur. Svo kemur bara í ljós hvernig manni tekst til,“ segir okkar maður.

Hvernig var að vera meðal þriggja efstu manna, í lokaráshópi eftir tvo hringi á mótinu í Indlandi, með sjónvarpsvélar og meiri athygli en nokkru sinni fyrr á ferlinum?

„Ég lék fáránlega vel fyrstu 36 holurnar, hitti allar brautir og flatir. Ég byrjaði vel á þriðja hring en missti svo einhvern veginn taktinn þegar ég fékk þrjá skolla í röð. Völlurinn var erfiður og refsar ef maður hittir ekki braut. Náði mér ekki almennilega í gír aftur og lék restina illa en það var mjög gaman að vera í lokaráshópi og spennustigið var bara í fínu lagi. Sjónvarpsvélarnar voru ekkert að trufla mig.“

Eitthvað sem þú hefur tekið úr þessari byrjun þinni á mótaröðinni?

„Þetta er auðvitað eitthvað flæði, upp og niður. Ég held bara áfram að berjast og einnig að njóta þess að vera á þessum stað. Ég er ekki mikið að pæla í því hvar ég er á stigalistanum, geri það þegar líður lengra á árið. Reyni að mæta þessu öllu með stóskri ró. Ég verð með í sex mótum á næstu sjö vikum þannig að það er bara spennandi,“ sagði Guðmundur Ágúst sem mun leika á Ryder vellinum á Ítalíu, Marco Simone GC, eftir mótið í Kóreu. Næstu mót þar á eftir verða í Belgíu, Hollandi, Þýskalandi og Svíþjóð.