Fréttir

Golfvellir á Suðurnesjum á sumarflatir
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 17. apríl 2023 kl. 14:52

Golfvellir á Suðurnesjum á sumarflatir

Verið er að færa yfir á sumarflatir á mörgum golfvöllum á næstu dögum og vikum. Tveir vellir á Suðurnesjum eru nú þegar með opið og aðrir tveir opna 19. og 20. apríl. All margir vellir eru þó seinna á ferð og munu ekki opna á sumarflatir fyrr en í maí. 

Meðal valla sem eru að opna eru Hólmsvöllur í Leiru sem opnar 19. apríl og Húsatóftavöllur í Grindavík opnar 20. aprí. Þá verða tólf holur af átján í Vestmannaeyjum opnaðar á næstu dögum. Kirkjubólsvöllur í Vogum hefur nú þegar opnað og sömuleiðis Þverárvöllur í Fljótshlíð. Selsvöllur á Flúðum verður opnaður 21. apríl og stefnt er að opnun Brautarholtsvallar í lok apríl. Þá var opið í allan vetur á sumarflatir í Sandgerði og í Þorlákshöfn eins og kylfingar eiga að venjast.

Vallarstarfsmenn Golfklúbbs Suðurnesja hafa verið í mörgum vetrar og vorverkum. Talsverðar framkvæmdir hafa verið gerðar á 4. brautinni en það svæði er það blautasta á Hólmsvelli. Brautin hefur verið breikkuð hægra megin og svo hafa verið framkvæmdir til að minnka bleytu á henni. Vallarmörk hafa alla tíð verið eftir allri brautinni við sjóinn en nú verður því breytt þannig að það er merkt með rauðu og er því hliðarvatnstorfæra alla leið frá teig að flöt. 

Sverrir Auðunsson er nýr framkvæmdastjóri GS og hann sagðist vorið og golfsumarið leggjast vel í hann. „Við munum leggja mesta áherslu á að hafa völlinn snyrtilegan og ýmsar framkvæmdir á honum að undanförnu snúa að því,“ sagði Sverrir.

Samið hefur verið við nýjan veitingaaðila, Guðmund Rúnar Lúðvíksson en hann þekkir vel til í golfskálanum í Leiru og var í mörg ár með veitingarnar. 

Vonast er til að hægt verði að tyrfa fljótlega svæði sem áður var kargi en verður nú braut á fjórðu holu. 

Ýmsar tilraunir eru nú við vatnslosun m.a. með því að gera rásir í 4. brautina. Önnur sandglompa af tveimur á brautinni verður tekin úr umferð.

Völlurinn kemur nokkuð vel undan vetri og hafa glompur verið sandaðar og valtaðar í tvígang á síðustu vikum.

Sandur settur á klúbbteig á Bergvíkinni, 3. braut.

Styttan kylfingurinn stóð af sér vetrarveður og mun gleðja kylfinga í sumar.