Örninn útsala 25
Örninn útsala 25

Fréttir

Bjarni ráðinn yfir vallastjóri í Mosfellsbæ
Mánudagur 10. október 2022 kl. 06:58

Bjarni ráðinn yfir vallastjóri í Mosfellsbæ

Bjarni Hannesson hefur verið ráðinn yfirvallastjóri Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Bjarni er einn reynslumesti vallarstjóri landsins og hefur mikla reynslu og menntun að baki.

Bjarni er með M.Sc. gráðu í grasvallatæknifræði frá Cranfield University í Englandi, einn íslendinga til að hafa lokið svo hárri námsgráðu í faginu. Þar áður lauk hann þriggja ára námi í „Golf Course Management “ frá Elmwood College í Skotlandi.

Bjarni ólst upp á Akranesi, þar sem hann hóf störf á golfvellinum árið 1995 og var gerður að vallastjóra sumrin 2002 og 2003 á milli þess sem hann stundaði nám í Skotlandi. Bjarni hefur starfað sem vallarstjóri hjá Golfklúbbi Ness, Keili og í Grindavík. Áður vann hann á Sunningdale vellinum í Englandi, sem hefur yfir að ráða tveimur völlum (Old og New) sem eru alla jafna flokkaðir í hóp bestu golfvalla í heiminum. Einnig starfaði Bjarni á Nashawtuc C.C. í Concord Ma. í Bandaríkjunum, en sá völlur hélt árlega eitt mót á Champions Tour, mótaröð eldri kylfinga í Bandaríkjunum.

Meðfram störfum sem vallastjóri hefur Bjarni einnig sinnt ráðgjafastörfum fyrir golf- og knattspyrnuvelli, rannsóknarstörfum í grasvallafræðum ásamt kennslu og fyrirlestrahaldi bæði fyrir landbúnaðarháskólann og fyrir samtök golfvallastarfsmanna hérlendis (SÍGÍ) sem og í Bretlandi (BIGGA).