Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Fréttir

Axel og Guðrún Brá sigruðu í Korpubikarnum
Axel Bóasson í Korpubikarnum. Mynd/golf.is
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 2. júní 2024 kl. 18:14

Axel og Guðrún Brá sigruðu í Korpubikarnum

Keiliskylfingarnir Axel Bóasson og Guðrún Brá Björgvinsdóttir sigruðu í Korpubikarnum, fyrsta stigamóti GSÍ á árinu. Axel var höggi betri en Andri Þór Björnsson GR og Aron Snær Júlíusson GKG. Guðrún Brá var höggi betri en Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR. Leiknar voru 54 holur frá föstudegi til sunnudags.

Axel lék á fjórum yfir pari í krefjandi aðstæðum þar sem veðurguðirnir voru ekki í sínu besta skapi. Keppni var jöfn og spennandi og margir í baráttunni en Keilismaðurinn hafði það að lokum þó hann hafi leikið lokahringinn á +4 en það gerði Aron Snær líka en hann var höggi á eftir Axel eftir tvo hringi af þremur. Selfyssingurinn Aron Emil Gunnarsson var jafn Axel eftir 36 holur og var í forystu þegar níu holur voru eftir en fataðist flugið á síðustu níu holunum. Aron og Axel voru jafnir þegar þeir komu á lokaholuna. Þar týndi Aron upphafshögginu og lék á þremur yfir pari en Axel fékk par og innsiglaði sigurinn á mótinu.  

Lokstaðan hjá körlum.

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Ragnhildur Kristinsdóttir var með þriggja högga forskot á Guðrúnu Brá eftir tvo hringi af þremur. Hún tapaði því og gott betur á fyrri níu holunum í lokahringnum sem hún lék á 43 höggum, sjö yfir pari. Guðrún vann fjögur högg af henni á þeim kafla en þær léku síðan báðar síðustu níu holurnar á -2. Guðrún stóð því uppi sem sigurvegari í enn einu einvígi þeirra á golfvellinum. Þær voru í sérflokki í kvennaflokki í mótinu því Pamela Ósk Hjaltadóttir, GM, var fimmtán höggum á eftir Ragnhildi.

Lokastaðan hjá konum.

Ragnhildur á teig í Korpubikarnum. Mynd/golf.is